Keflavíkurstúlkur verma nú einar efsta sæti Dominosdeildar kvenna eftir að hafa lagt Grindavíkurstúlkur af velli í kvöld 84:67 í TM-Höllinni. Keflavíkurstúlkur leiddu leikinn frá upphafi og létu forystuna aldrei af hendi. Keflavíkurstúlkur hafa komið flestum nema sjálfum sér á óvart núna í upphafi móts og sigrað tvo nokkuð sterka andstæðinga, eða í það minnsta andstæðinga sem báðum var spáð hærri sæti í deildinni.
Keflavík hóf leikinn af miklum krafti og strax í fyrsta leikhluta voru þær komnar í 15 stiga forystu með hreint út sagt glimmrandi leik. Leiddar af Porche Landry sem setti niður 19 stig í fyrri hálfleik voru Keflavíkurliðið í bland að keyra sterkt upp að körfunni og setja þriggja stiga skotinn niður. Varnarleikur þeirra var einnig til fyrirmyndar og ef ekki hefði verið fyrir framlag Maríu Ben Erlingsdóttir þá hefði munurinn líkast til verið töluvert stærri.
Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Grindavíkur hafði reyndar í fyrri hálfleik fengið nóg af þessari grimmu stigaskorun frá Porsche og skipti í “box og einn” vörnina þar sem að Pálína Gunnlaugsdóttir var sett til höfuðs Porsche. Hún vissulega hægði á henni en augljóst var að sú erlenda var ekki í sínu besta formi.
Í seinni hálfleik voru Grindavíkurstúlkur grimmari og gerðu nokkuð gott áhlaup að forskoti heimastúlkna og náðu mest að minnka muninn niður í 8 stig við upphaf fjórða og loka hluta leiksins. Flestir hafa þá búist við að í stefndi hörku leik sem myndi jafnvel ráðast á síðustu metrunum. En Keflavíkurstúlkur settu fljótlega niður þrist og annan og kæfðu í fæðingu það “comeback” sem Grindavíkurstúlkur höfðu verið að gæla við.
Sigurinn var verðskuldaður að öllu leiti. Keflavíkurstúlkur voru bara hreinlega betri þetta kvöldið en Grindavíkurstúlkur þurfa svo sannarlega að mæta töluvert betur stemmdar til Keflavíkur ætli þær sér sigur þar.