spot_img
HomeFréttirKeflavíkursigur í döprum leik

Keflavíkursigur í döprum leik

 Keflavík átti ekki í miklum vandræðum að landa sigri á andlausu liði Tindastóls í 2. umferð Iceland Express deildinni í kvöld. Þrátt fyrir aðeins 9 stiga sigur í lokinn þá virtist aldrei líta út fyrir að það yrðu gestirnir sem myndu hirða öll stig í boði.
Steven Gerard er nýr leikmaður Keflavíkur og var hann frumsýndur þetta kvöldið. Það var líkt og kappinn hafði lítið annað gert síðustu ár en að spila í liði Keflavíkur því hann fór hreint út sagt hamförum strax á upphafsmínútum og leiddi Keflvíkinga í 17 stiga mun eftir fyrsta leikhluta.  Keflvíkingar voru að spila afar vel í fyrri hálfleik og voru það rúmlega 20 stig sem skildu liðin tvö í hálfleik. 
 
Tindastólsmenn voru gersamlega heillum horfnir í sínum leik á báðum enda vallarins í fyrri hálfleik. Einstaklingsframtakið var í hávegum haft í sóknarleiknum og leikkerfi fengu aldrei að rúlla, eins og sagt er.  Í seinni hálfleik brugðu gestirnir á það ráð að skipta um varnarafbrigði og voru komnir í svæðisvörn. Líklega eitthvað sem þeir hefðu átt að rífa upp fyrr í leiknum því þetta kom Keflvíkingum algerlega spánskt fyrir sjónir. Það hægðist verulega á leik heimamanna og gestirnir gengu á lagið. 
 
Munurinn varð minnstur 9 stig en þá mundu Keflvíkingar eftir því að þeir voru með afbragðs góðar skyttur sem nutu sín í að koma muninum aftur upp í 20 stig.  Undir lokinn náðu Tindastólsmenn að klóra eylítið í bakkann en það voru heimamenn sem lönduðu sigri. 
 
Steven Gerard komst nokkuð vel frá þessum leik og endaði stigahæstur heimamanna. Aðrir leikmenn stóðu sig nokkuð vel einnig. Charlie Parker hafði augljóslega fengið tiltal eftir síðasta leik hans í Grindavíkinni og kappinn reyndi af krafti að sýna hversu megnugur hann er. Hinsvegar er spurningarmerki hvort það hafi verið nóg enda hafa fyrrum erlendir leikmenn Keflvíkinga stillt slánna nokkuð hátt. 
 
Hjá Tindastól verður erfitt að tína út góðan leik hjá einstaka leikmönnum.  Svavar Birgisson átti ágætis spretti sóknarlega og þá var  Trey Hampton nokkuð duglegur undir körfunni. Nýr leikstjórnandi þeirra Maurice Miller var hinsvegar ekki sannfærandi þrátt fyrir að hafa skorað 19 stig. Hann hefði mátt spila liðsfélaga sína meira uppi. 
 
MYND: Steven Gerard með boltann fyrir Keflvíkinga
Texti/Mynd: [email protected] 
Fréttir
- Auglýsing -