spot_img
HomeFréttirKeflavíkursigur á baráttuglöðum Fjölnismönnum

Keflavíkursigur á baráttuglöðum Fjölnismönnum

Keflavík tók á móti Fjölni í Iceland Express deild karla í kvöld og var leikurinn hin ágætasta skemmtun. Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem að Keflavík tók öll völdin á vellinum og fór að lokum með 15 stiga sigur af hólmi, 96-81. Hjá Keflavík var Jarryd Cole stigahæstur með 34 stig og 18 fráköst. En hjá Fjölni var Nathan Walkup þeirra besti maður og endaði með 38 stig og 11 fráköst.
Fjölnismenn byrjuðu leikinn á fullum krafti og virtust geta skorað í hverri sókn. Vörn Keflavíkur var ekki að gera mikið fyrir þá í upphafi og að auki áttu þeir erfitt að skora á baráttuglaða Fjölnismenn. Keflavík fór að sækja meira á Fjölni um miðjan leikhlutann en Fjölnir hélt sínu og leiddu 22-29 þegar leikhlutanum lauk. Cole var kominn með 8 stig fyrir Keflavík og Walker með 9 fyrir Fjölni.
 
Í öðrum leikhluta hélt Keflavík áfram að sækja á Fjölni. Þeir voru komnir í svæði sem Fjölnir áttu erfitt með að leysa á tímum. Fjölnir hélt áfram að berjast og héldu forystunni allt fram að síðustu mínútum leikhlutans. Þegar 2:30 voru eftir af leikhlutanum kemst Keflavík yfir í fyrsta skipti í leiknum eftir víti frá Parker. Eftir það skiptust liðin á að vera yfir en það voru Keflvíkingarnir sem eru yfir þegar flautað er til hálfleiks, 45-41. Hjá Keflavík var Cole kominn með 17 stig og Charles Parker með 15, en hjá Fjölni var Walkup allt í öllu og kominn með 19 stig.
 
Þriðji leikhlutinn nokkurn veginn gekk bara. Það var ekkert stórkostlegt að gerast og leikurinn hélt áfram að vera á sömu nótunum og í fyrri hálfleik. Jafnræði var með liðunum en Keflavík hélt samt sem áður forystunni þó svo að hún hafi ekki verið mikil. Staðan fyrir loka leikhlutann var 63-61 fyrir Keflavík. Hjá Keflavík var Cole kominn með 25 stig, Parker 17 og Steven Dagustino 13 stig. Walker var kominn með 29 stig fyrir Fjölni og Jón Sverrisson 13 stig.
 
Keflavík mætti í fjórða leikhluta. Það var allt annað að sjá liðið og stungu þeir Fjölni af á síðustu 10 mínútunum og komust þeir 16 stigum yfir um miðjan leikhlutann, 86-70. Fjölnir hættu þó aldrei að berjast en það var bara eins og boltinn vildi ekki ofan í körfuna hjá þeim, að frátöldum Walkup sem átti frábæran leik í kvöld. Leikurinn endaði eins og áður segir 96-81 fyrir Keflavík sem að stungu af í leikhlutanum og voru vel að sigrinum komnir og eru nú jafnir Stjörnunni í 2.-3. sæti deildarinnar með 16 stig.
 
Hjá Keflavík var Cole með 34 stig og 18 fráköst, Parker var með 27 stig, 11 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna og Dagustinu var með 22 stig og 7 stoðsendingar. En aðeins tveir aðrir komust á blað hjá Keflavík í kvöld, Almar Guðbrandsson með 9 stig og Ragnar Albertsson með 4 stig. Þess má þó geta að Magnús Þór Gunnarsson var ekki með Keflavík í kvöld vegna veikinda.
 
Hjá Fjölni var Walkup þeirra langbestur á vellinum og getur drengurinn skorað hvar og hvernig sem er á vellinum en hann endaði leikinn með 38 stig og 11 fráköst. Jón Sverrisson var honum næstur með 13 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar og Arnþór Freyr Guðmundsson var með 12 stig, 7 stoðsendingar og 3 stolna.
 
Heildarskor:
 
Keflavík: Jarryd Cole 34/18 fráköst, Charles Michael Parker 27/11 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Steven Gerard Dagustino 22/4 fráköst/7 stoðsendingar, Almar Stefán Guðbrandsson 9/4 fráköst, Ragnar Gerald Albertsson 4, Gunnar H. Stefánsson 0, Valur Orri Valsson 0, Halldór Örn Halldórsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Sævar Freyr Eyjólfsson 0, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0.
 
Fjölnir: Nathan Walkup 38/11 fráköst, Jón Sverrisson 13/5 fráköst/6 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 12/7 stoðsendingar, Calvin O’Neal 11/6 fráköst/5 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5/4 fráköst, Haukur Sverrisson 2, Tómas Daði Bessason 0, Gústav Davíðsson 0, Trausti Eiríksson 0, Gunnar Ólafsson 0, Daði Berg Grétarsson 0, Halldór Steingrímsson 0.
 
Dómarar: Jón Bender, Halldór Geir Jensson
 
Umfjöllun/ [email protected]   
Fréttir
- Auglýsing -