Tindastóll tók á móti Keflavík í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Bónus deildar kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Keflavík vann fyrsta leik liðanna auðveldlega í Keflavík og gátu gert sópinn kláran með sigri í Síkinu í kvöld. Ilze og Rannveig sneru aftur í lið Stóla eftir veikindi.
Leikurinn hófst með þrist frá Brynju Líf en Keflavík átti næstu 11 stig og komu sér þar með í þægilega forystu strax í byrjun. Stólastúlkur náðu að koma til baka og munurinn 4 stig að loknum fyrsta leikhluta 22-26 fyrir gestina úr Keflavík. Þær fóru svo fljótlega að pressa á Stólastúlkur sem áttu í vandræðum og munurinn var fljótlega kominn yfir 10 stig. Jasmine Dickey fór oft illa með Stólavörnina og það var reyndar áberandi hversu seint og illa heimastúlkur skiluðu sér til baka til að verja körfuna. Keflavík leiddi 30-52 í hálfleik og afar fátt sem benti til þess að Stólar ættu einhver svör.
Seinni hálfleikurinn hófst svipað og sá fyrri endaði, Keflavík keyrði yfir Stóla og komu muninum yfir 30 stig eftir rúmar þrjár mínútur. Það sem eftir lifði leikhlutans slökuðu gestirnir aðeins á og Stólar náðu aðeins að spretta á móti. Flautukarfa frá Ingu Sólveigu kom muninum í 14 stig fyrir lokaleikhlutann og smá von í Síkinu. Stólar héldu áfram að berjast og þristar frá Brynju Líf og svo Randi komu muninum tvisvar í 11 stig en Keflavík átti alltaf svar við áhlaupunum og munurinn varð aldrei minni. Gestirnir sigldu svo að lokum heim 12 stiga öruggum sigri.
Hjá Stólum skilaði Randi Brown 23 stigum og 10 fráköstum og Brynja Líf bætti við 15 stigum úr 5 þristum. Hjá Keflavík endaði Jasmine með 30 stig og Sara Rún með 25, frábær leikur frá þeim.
Ef Stólar ná ekki að girða sig verður þeim sópað út í næsta leik. Þó að Randi sé búin að vera frábær í vetur og Ilze komið sterk inn þá eru Berenger og Zuzanna mikil vonbrigði og styrktu lið Stóla alls ekki. Það þarf að vanda valið betur fyrir næsta tímabil og hlúa vel að heimastúlkum sem eru að feta sín fyrstu skref í efstu deild
Viðtöl :
Umfjöllun / Hjalti Árna