spot_img
HomeFréttirKeflavík tekur forystuna

Keflavík tekur forystuna

 Keflavík tók á móti KR í fyrsta leik úrslitakeppninnar í Dominos deild kvenna í dag. Leikurinn var jafn framan af en heimakonur stungu af í fjórða leikhlutanum og unnu að lokum 18 stiga sigur, 70-52, og eru því komnar í 1-0.
 
Jafnt var á öllum tölum í upphafi leiks þar sem vörn beggja liða var í fyrirrúmi. Mikil barátta einkenndi leik liðanna og greinilegt að hvorugt liðanna ætlaði að gefa neitt eftir í þessum fyrsta leik. Vörnin var í hámarki og var oft erfitt á tímum fyrir bæði lið að finna auðvelda leið að körfunni.
Heimakonur byrjuðu annan leikhlutann af krafti og lokuðu vel á sókn KR-kvenna. Gestirnir reiddu mikið á þriggja stiga skotin í dag sem voru engan veginn að detta niður hjá þeim. Keflavík voru komnar með 9 stiga forskot 28-19 um miðjan leikhlutann þegar KR tók til sinna ráða og unnu síðustu mínútur leikhlutans 1-10. Það var því jafnt þegar gengið var inn í búningsklefanna í hálfleik 29-29.
 
KR koma inn úr hálfleik eins og þær enduðu annan leikhlutann og ná forystunni á fyrstu mínútum leikhlutans. Vörn gestanna var til fyrirmyndar og átti Keflavík fá svör við henni á þessum tímapunkti, eða þar til þær hlóðu í byssurnar og fóru að negla niður þristum hægri vinstri.
Keflavík hélt áfram á sama róli í fjórða leikhluta. Skelltu í lás í vörninni og settu niður, að það virtist, hvert einasta skot. Þær áttu síðustu 10 mínútur leiksins og fóru að lokum með góðan sigur af hólmi, 70-52.
 
Jessica Jenkins var frábær í leiknum og þá sérstaklega í seinni hálfleik þar sem hún skoraði 12 af sínum 23 stigum (5/9 í þriggja). Einnig ber að nefna hina ungu Ingunni E. Kristínardóttur sem átti frábærar innkomur hjá heimakonum, hún endaði leikinn með 12 stig í leiknum þar sem hún setti niður stórar og mikilvægar körfur á réttum augnablikum.
Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum meiddist Shannon McCallum á ökkla og varð að yfirgefa völlinn. Hún var búin að vera frábær í lið gestanna í dag þar sem hún endaði leikinn með 26 stig og 10 fráköst.
 
 
 
Umfjöllun: [email protected]

 
 
Fréttir
- Auglýsing -