Keflvíkingar sóttu fimmta sigur sinn í röð, er þeir báru sigur úr bítum á skörpu liði Þórs frá Þorlákshöfn. Leikurinn var hin mesta skemmtun og allt leit út fyrir að Keflvíkingar myndu sigla þessum sigri auðveldlega í höfn.
Leikurinn var jafn til að byrja með á meðan liðin voru að finna körfuna og láta reyna á skotin, en snemma í fyrsta leikhluta fóru Keflvíkingar að blása til sóknar og herða tökin í vörninni. Með sínum stífa varnarleik, sem Keflvíkingar hafa verið þekktir fyrir í vetur náðu þeir að stela þó nokkrum boltum, en þar voru fremstir í flokki Darrel Lewis og Guðmundur Jónsson. Eitthvað virtist vörn heimamanna koma Þórsurum á óvart, því Keflvíkingar náðu mest 15 stiga forustu og héldu henna nánast allan fyrsta leikhluta. Að fyrsta leikhluta loknum var staðan 35-22 heimamönnum í vil
Darryl Lewis var atkvæðamestur í leikhlutanum en hann skoraði 11 stig.
Annar leikhluti var mjög svipaður þeim fyrri en Þórsarar voru þó ívið betri. Mike Cook hafði ekki verið að hitta vel fyrir Þórsara og munaði um mikið, var hann einungis með tvö stig í upphafi annars leikhluta en endaði hálfleikinn með 9 stig. Þakið ætlaði að rifna af húsinu um stund þegar Michael nokkur Craion troð með tilþrifum yfir Ragnar Ágúst Nathanaelsson eftir Alley-oop sending frá Arnari Frey Jónssyni. Þriðji leikhluti var frekar rólegur þar sem að heimamenn virtust ætla að halda þessum leik í 15-20 stigum allt til loka, staðan eftir þrjá leikhluta var 81-62.
Í fjórða leikhluta ætlaði allt um koll að keyra, Þórsarar hófu þá skothríð í bítlabænum sem skilaði þeim 15-0 áhlaupi en skothríð Keflvíkinga virtist aðeins vera púðurskot því þeir skoruðu ekki fyrstu 5 mínútur leikhlutans. Þeir grænklæddu, með dyggum stuðningi sinni manna, sem höfðu gert sér ferð til Keflavíkur og létu vel í sér heyra náðu að minnka forskot heimamanna í þrjú stig þegar um tvær mínútur voru eftir. En reynsla Keflvíkinga skilaði þeim sigri í kvöld, tóku agaðar sóknir og kláruðu þær vel og vandlega.
Keflavík-Þór Þ. 97-88 (35-22, 20-19, 26-21, 16-26)
Keflavík: Michael Craion 22/14 fráköst/3 varin skot, Darrel Keith Lewis 19, Guðmundur Jónsson 17/7 fráköst, Valur Orri Valsson 12/5 fráköst, Gunnar Ólafsson 10, Arnar Freyr Jónsson 8/10 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 4/5 fráköst, Andri Daníelsson 3, Ragnar Gerald Albertsson 2, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Ólafur Geir Jónsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0.
Þór Þ.: Nemanja Sovic 30/16 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 22/16 fráköst/4 varin skot, Þorsteinn Már Ragnarsson 11, Mike Cook Jr. 9, Tómas Heiðar Tómasson 9/5 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 4/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 3/5 fráköst, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Jón Jökull Þráinsson 0, Davíð Arnar Ágústsson 0, Matthías Orri Elíasson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0.
Umfjöllun/ DÖÓ