Keflavíkurstúlkur sýndu gríðarlegan styrk í kvöld þegar þær komu tilbaka úr vonlítilli stöðu og náðu að knýja framlengingu gegn KR sem hafði leitt megnið af leiknum. Í framlengingunni voru heimastúlkurnar sterkari og kláruðu með 75:66 sigri.
Sem fyrr segir voru það KR sem voru töluvert sterkari aðilinn megnið af leiknum. Nýr erlendur leikmaður þeirra Shannon McCallum mun augljóslega styrkja liðið gríðarlega það sem eftir lifir móts. Stór og sterk stelpa sem hefur gott skot og liprar hreyfingar. Hún setti niður 22 stig og tók 17 fráköst þetta kvöldið en helst til tók hún á stundum ótímabær skot þegar hún ætlaði taka leikinn í sínar hendur.
En aftur að leiknum, það voru aðeins 3 mínútur af leiknum þegar Keflavíkurstúlkur komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Fram að því voru KR stúlkur með yfirhöndina og það skipti miklu að Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var líkt og Karíus og Baktus í sælgætislandi í teig Keflavíkur. Hún skapaði liði sínu hver möguleikan á fætur öðrum með sóknarfráköstum sínum og er hún skráð á tölfræði kerfinu með 7 slík. Það leit hinsvegar út eins og hún hafi verið með töluvert fleiri. Þrátt fyrir að fá nánast tvö tækifæri í hverri sókn voru KR ekki að nýta sér það nægilega vel.
Á loka mínútunni höfðu KR komið sér 2 stiga forystu og Keflavíkurstúlkur héldu í sókn með aðeins 20 sekúndur eftir af klukkunni. Það var þá Pálína Gunnlaugsdóttir sem skoraði gríðarlega mikilvæga körfu úr mjög þröngri stöðu og jafnaði leikinn. KR fengu svo möguleika á að klára leikinn en skot Shannon McCallum rataði ekki rétta leið og því var framlengt. Í framlengingunni voru það KR sem skoruðu fyrstu stigin en svo komust Keflavík yfir og létu þá forystu ekki af hendi. Þær kláruðu svo vel af línunni á síðustu sekúndum og því segir 9 stiga sigur lítið um hversu jafn leikurinn var.