Stórleikur í undaúrslitum kvenna í Poweradebikarnum í Hólminum þar sem toppliðin Snæfell og Keflavík mættust. Farmiði í Höllina í verðlaun og bæði lið vissu fyrirfram hvernig er fá að spila þar.
Byrjunarliðin.
Snæfell: Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sig, Helga Hjördís, Alda Leif.
Keflavík: Sara Rún, Birna Ingibjörg, Bryndís Guðmundsdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir, Jessica Ann Jenkins.
Liðin byrjuðu af krafti og var vel hlaupið á milli sóknar og varnar báðum megin. Keflavík var skrefinu á undan strax í upphafi og settu góð skot niður 2-6. Snæfell var hins vegar stutt undan og komust yfir með þrist frá Öldu Leif 14-12. Leikurinn var hnífjafn í fyrsta hluta þar sem liðin skiptust á að skora. Varnarleikur Keflavíkur var á köflum betri en pressan reyndist þeim ekki vel. Birna Valgarðs og Pálína voru að fara fyrir Keflavíkurstúlkum og Alda, Hildur Björg og Kierahh hjá Snæfelli. Snæfell leiddi 23-20 eftir fyrsta fjórðung.
Staðan var jöfn 31-31 um miðjan annan hluta og allt í járnum og hvergi hægt að sjá annað liðið ná sér í einhvern ”run” kafla. Varnir beggja liða þokkalegar og fastar fyrir en liðin völdu sér góð skot og nýttu sóknir ágætlega. Keflavík settu upp í pressu og náðu oft vel í boltann af Snæfelli en hittu illa, misstu sjálfar boltann og nýttu tækifærin lítið þegar staðan var 37-34 fyrir Snæfell. Kieraah Marlow fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu undir lok fyrri háfleiks. Staðan var 41-38 fyrir Snæfell í hálfeik.
Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow komin með 14 stig og 6 fráköst, Hildur Björg og Alda Leif voru komnar með 7 stig hvor.
Í Keflavík var Birna Valgarðsdóttir komin með 11 stig og Pálína Gunnlaugs 9 stig.
Snæfellsstúlkur komu með áhlaup strax í upphafi sem kviknaði með þrist frá Öldu Leif og komust í 48-38, ekki stór munur en mikilvægt í þessum jafna leik. Keflavík hrökk í gírinn og tók á því með næstu fjögur stig 48-42 og Snæfell tóku leikhlé. Sara Rún og Birna Valgarðs voru komnar með 4 villur og voru í vanda þar um miðjan þriðja fjórðung. Mikið var hnoðast og pústrað og lítið skorað á kafla. Hildur Sigurðar smellti þremur fyrir 52-42 en Keflavík náði þessu niður í 54-50 og héldu sér með í leiknum af hörku. Staðan eftir fjórða hluta 57-52 fyrir Snæfell.
Staðan var 63-62 fyrir Snæfell og ekkert nema harkan í gangi í leiknum þegar 6 mínútur voru eftir. Snæfell jafnaði 65-65 en Pálína kom Keflavík aftur yfir 65-68 með góðum þrist. Hildur Sig og Helga Hjördís fuku útaf með fimm villur hjá Snæfelli en það gerðu Birna og Sara Rún einnig hjá Keflavík. Þegar mínúta lifði var staðan 69-71 og Keflavík misstu boltan klaufalega en lítið gekk hjá Snæfelli að fá boltann i netið og Bryndís Guðmunds breytti stöðunni í 69-73 á vítalínunni þegar 8 sekúndur voru eftir. Snæfell hitti ekki á vítalínunni þegar mest á reyndi í lokin og staðan var 70-73 þegar boltinn barst til Kieraah Marlow sem geigaði á þriggja stiga skoti og þær örfáu sekúndur sem eftir voru runnu út. Keflavíkur stúlkur mæta þar af leiðandi Val í úrslitaleik Poweradebikar kvenna.
Snæfell: Kieraah Marlow 22/15 fráköst. Hildur Björg Kjartansdóttir 16/8 fráköst. Hildur Sigurðardóttir 9/9 frák/ 5 stoðs. Berglind Gunnarssóttir 9/7 frák. Alda Leif 8/5 stoðs. Helga Hjördís 8/5 stoðs. Sara Sædal 0. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0. Aníta Rún 0. Brynhildur Inga 0. Rósa Kristín 0.
Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 23/9 frák/6 stoðs. Birna Valgarðsdóttir 17/9 frák. Sara Rún Hinriksdóttir 8. Jessica Ann Jenkins 8/4 frák. Ingunn Embla 7. Bryndís Guðmundsdóttir 6. Sandra Lind Þrastardóttir 4. Elínora Guðlaug 0. Katrín Fríða 0. Telma Lind 0. Lovísa Falsdóttir 0. Bríet Sif 0.
Símon B. Hjaltalín