Breiðablik tók á móti Keflavík í Smáranum í kvöld í 17. umferð Domino‘s deildar kvenna. Fyrir leikinn höfðu liðin tvívegis mæst í deildinni í vetur og skipt sigrunum bróðurlega á milli sín. Eftir nokkuð jafnan leik í fyrri hálfleik reyndust Keflvíkingar vera sterkari aðilinn í þeim síðari og fóru þær með sigur af hólmi, 65-81.
Gangur leiksins
Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og komust í 0-6 en Blikar tóku við sér um miðjan fyrsta fjórðung og komust yfir í stöðunni 13-12. Nokkuð jafnræði var með liðunum næstu mínúturnar, Breiðablik náði mest 6 stiga forystu í stöðunni 31-25 en Keflvíkingar voru fljótir að vinna niður það forskot. Eyrún Ósk Alfreðsdóttir setti niður þrist fyrir Breiðablik rétt áður en flautað var til hálfleiks og leiddi Breiðablik með 3 stigum þegar liðin gengu til klefa.
Gestirnir mættu ákveðnar til leiks í síðari hálfleik á meðan Breiðablik gekk illa að nýta þau færi sem þær sköpuðu sér. Á fyrstu 8 mínútum seinni hálfleiks breytti Keflavík stöðunni úr 36-33 í 42-54. Þann mun náði Breiðablik aldrei að brúa og Keflavík hélt því heim með tvö stig í fararteskinu.
Framlagshæstu leikmenn
Brittanny Dinkins var stigahæst í liði Keflavíkur með 32 stig auk þess að taka 7 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Þá skoraði Thelma Dís Ágústsdóttir 21 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Birna Valgerður Benónýsdóttir bætti við 12 stigum og tók 4 fráköst.
Hjá Breiðablik var Sóllilja Bjarnadóttir atkvæðamest með 18 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar, Ivory Crawford skoraði 17 stig og tók 10 fráköst og Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði 11 stig og tók 12 fráköst.
Tölfræðin lýgur ekki
Skotnýting Keflvíkinga var mun betri en skotnýting Breiðabliks í kvöld en þær settu niður 62% tveggja stiga skota sinna á móti 41% nýtingu Breiðabliks. Þegar kemur að þriggja stiga skotum eru liðin hnífjöfn, taka 18 skot hvort og setja 4 af þeim niður.
Kjarninn
Eftir leiki dagsins situr Keflavík í 2.-3. sæti Domino‘s deildar kvenna með 24 stig líkt og Haukar en Valur vermir toppsætið með 26 stig. Breiðablik er í 5. sæti með 16 stig, tveimur stigum meira en Skallagrímur sem situr í 6. sæti.