Keflavík slapp með skrekkinn eftir tvíframlengingu á Jakanum - Karfan
spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflavík slapp með skrekkinn eftir tvíframlengingu á Jakanum

Keflavík slapp með skrekkinn eftir tvíframlengingu á Jakanum

Keflavíkingar lentu í basli með nýliða Vestra í kvöld og þurftu tvær framlengingar áður en þeir lönduðu 99-101 sigri.

Gestirnir voru betra liðið framan af og leiddu mest með 15 stigum. Valur Orri Valsson var á eldi í fyrsta leikhluta og setti í honum fjórar þriggja stiga körfur. Heimamenn voru þó mikið sprækari í seinni hálfleik og jafnaði Ken-Jah Bosley leikinn, 78-78, af vítalínunni rétt fyrir lok venjulegs leiktíma.

Vestri leiddi megnið af fyrstu framlengingunni en David Okeke jafnaði leikinn þegar 39 sekúndur voru eftir. Eftir að Vestri klikkaði í næstu sókn þá áttu Keflvíkingar möguleika á sigri en þriggja stiga skot Magnúsar Péturssonar geigaði rétt áður en klukkan gall.

Í seinni framlengingunni skiptust liðin á að leiða. Þegar mínúta var eftir kom Bosley Vestra tveimur stigum yfir en Magnús setti risastóran þrist fyrir Keflavík í næstu sókn. Valur Orri kemur svo Keflavík tveimur stigum yfir með víti þegar 13 sekúndur eru eftir. Hann klikkar á seinna skotinu og Okeke nær sóknarfrákastinu en skot hans er varið af Nemanja Knezevic. Vestramenn ná einni lokasókn en þriggja stiga skot Bosley geigar og Keflvíkingar sluppu heim með sigur í farteskinu.

Ken-Jah Bosley hjá Vestra var stigahæsti maður vallarins en hann endaði með 33 stig og 8 stoðsendingar. Vestfjarðatröllið Nemanja Knezevic átti einnig stórleik fyrir Vestra en hann var með 22 stig, 16 fráköst og 3 varin skot. Leikstjórnandinn Rubiera Alejandro komst einnig vel frá sínu með 18 stigum og Hilmir Hallgrímsson skoraði 11.

Hjá Keflavík voru David Okeke og Jaka Brodnik stigahæstir með 23 stig hvor. Valur Orri Valsson var frábær fyrir Keflavík en hann endaði með 22 stig og setti niður fimm þriggja stiga körfur. Stjörnumiðherji Keflvíkinga, Dominykas Milka, sá hins vegar ekki mikið sólar og hitti einungis úr 5 af 18 skotum sínum enda eyddi hann megninu af leiknum í vasanum á Vestfjarðatröllinu Nemanja Knezevic.

Vestri á næst útileik á móti Þór Þorlákshöfn 14. október á meðan Keflavík fær Stjörnuna í heimsókn degi seinna.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -