spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík slapp með sigur á Sunnubrautinni - Mæta Njarðvík í úrslitum

Keflavík slapp með sigur á Sunnubrautinni – Mæta Njarðvík í úrslitum

Keflavík lagði Stjörnuna í oddaleik í kvöld í undanúrslitum Subway deildar kvenna, 81-76. Keflavík vann einvígið því 3-2, en í úrslitum munu þær mæta grönnum sínum úr Njarðvík.

Fyrir leik

Eftir að heimakonur höfðu unnið fyrsta leik liðanna nokkuð örugglega í Keflavík höfðu síðustu þrír leikir liðanna allir verið jafnir og spennandi. Stjarnan hafði unnið heimaleikina sína og Keflavík þessa tvo í Blue höllinni.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Stjörnunni sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Ná 2-8 áhlaupi á fyrstu mínútum leiksins og virðast hafa alla stemningu með sér. Með stórum þristum frá Thelmu Dís Ágústsdóttur og Söru Rún Hinriksdóttur nær Keflavík að skjóta sig inn í leikinn og eru þær komnar með forystuna um fyrsta fjórðung hálfnaðan, 15-12. Stjarnan nær aðeins að bæta í á lokamínútum leikhlutans og eru skrefinu á undan að honum lokum, 20-23. Í öðrum leikhlutanum tekur Stjarnan öll völd á vellinum. Komast vel af stað sóknarlega á meðan þær ná að halda nokkuð aftur af heimakonum varnarlega. Fara mest með forystu sína í 11 stig, en Keflavík nær að svara ansi vel á lokamínútum annars leikhlutans og er munurinn aðeins sex stig þegar liðin halda til búningsherbergja, 41-47.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Thelma Dís Ágústsdóttir með 13 stig á meðan að Kolbrún María Ármannsdóttir var komin með 14 stig fyrir Stjörnuna.

Heimakonur opna seinni hálfleikinn á 11-4 áhlaupi og eru komnar aftur í forystu þegar 7 mínútur eru eftir af þeim þriðja, 52-51. Varnarlega er Keflavíkurliðið miklu betra á þessum kafla leiksins, ná í ófá skiptin að búa sér til tapaða bolta, ná að keyra í bakið á Stjörnunni og skapa sér auðveldar körfur. Leikar haldast þó nokkuð jafnir til loka fjórðungsins en fyrir lokaleikhlutann eru liðin jöfn, 60-60.

Lykilleikmaður Keflavíkur Birna Velgerður Benónýsdóttir meiðist í byrjun fjórða leikhlutans og virðist það fara betur en áhorfðist í byrjun, þar sem hún situr á bekk Keflavíkur það sem eftir lifir leiks. Leikar haldast þó jafnir vel inn í fjórða leikhlutann, þar sem það munar aðeins stigi á liðunum þegar fimm mínútur eru til leiksloka, 68-67. Bæði lið ná að læsa nokkuð vel varnarlega á lokamínútunum, en það er Keflavík sem nær að vera á undan. Eru 6 stigum yfir þegar mínúta er til leiksloka, 76-70. Undir lokin ná þær svo að halda aftur af spræku liði Stjörnunnar, sem reynir gjörsamlega allt til að gefa sér færi á að vinna leikinn, en allt kemur fyrir ekki, niðurstaðan fimm stiga sigur heimakvenna, 81-76.

Atkvæðamestar

Atkvæðamestar í liði Keflavíkur í kvöld voru Sara Rún Hinriksdóttir með 20 stig, 8 fráköst og Daniela Wallen með 16 stig, 17 fráköst og 9 stoðsendingar.

Fyrir Stjörnuna var Denia Davis-Stewart atkvæðamest með 20 stig og 24 fráköst. Næst henni var Kolbrún María Ármannsdóttir með 17 stig og 6 fráköst.

Kjarninn

Það er engin skömm fyrir þetta unga og upprennandi lið Stjörnunnar að hafa tapað fyrir Keflavík í þessu einvígi. Gerðu mun betur en bjartsýnustu spámenn og konur höfðu þorað að vona. Verður áhugavert að sjá hvernig uppgangur þeirra verður á komandi árum, þá ekki síst í ljósi þess að þjálfari þeirra Arnar Guðjónsson kveður nú og Ólafur Jónas Sigurðarson kemur inn í staðinn.

Hvað svo?

Keflavík mætir grönnum sínum úr Njarðvík í úrslitaeinvígi deildarinnar. Fyrsti leikur er á heimavelli deildarmeistara Keflavíkur komandi fimmtudag 16. maí.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -