spot_img
HomeFréttirKeflavík skipar Fjölni að fara að pakka

Keflavík skipar Fjölni að fara að pakka

Keflavík sigraði Fjölni í 19. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í Sláturhúsinu, með 99 stigum gegn 81. Keflavík eru því komnir í 7-8. sæti deildarinnar (ásamt Þór, sem kjöldróg bikarmeistara Stjörnunnar fyrr í kvöld) á meðan Fjölnir vermir botnsæti deildarinnar (hafa nú tapað 7 útileikjum í röð) og virðast til þess dæmdir að fara aftur niður um deild jafn hratt og þeir komu upp fyrir þetta tímabil.
 

 

Frá allra fyrstu mínútu leiksins var það með öllu öruggt hvort liðið færi með sigur af hólmi að honum loknum. Í sjálfu sér ekkert sérstakt í leik heimamanna sem fékk mann til þeirrar niðurstöðu. Frekar var vísbendinguna að finna í leik gestana úr Grafarvogi. Fjölnir skorti hreinlega alla þá eiginleika sem að lið sem spilar á þessu hæsta stigi íslensks körfubolta ætti að hafa. 

 

Taka skal fram að liðið hafði fyrir leikinn glatað sínu helsta vopni (einum besta leikmanni þessa tímabils) og leiðtoga til Spánar (Arnþór Guðmundsson), en það hefur líklegast haft frekar mikil áhrif á þá.

 

Fyrsti leikhluti leiksins féll heimamönnum í skaut, 25-15, eftir annan var staðan svo orðin 51-40. Semsagt 11 stiga munur heimamanna í hálfleik, sem væri nú svosem ekkert tiltökumál fyrir öll lið deildarinnar að vinna á eftir hálfleik, nema Fjölnir. 

 

Í hálfleik voru það bandaríkjamenn hvors liðs fyrir sig sem að voru atkvæðamestir. Hjá Keflavík var það Davon Usher sem að var kyndilberi sinna manna með 17 stig, 2 stoðsendingar og 3 fráköst. Hjá Fjölni var það hinsvegar Jonathan Mitchell sem að dró vagninn með 14 stigum og 10 fráköstum.

 

Í seinni hálfleiknum héldu svo leiðindi þess fyrri áfram, þar sem að í lok þess 3. voru heimamenn komnir með forskot sitt í 19 stig, áður en að þeir kláruðu leikinn svo með 18 stiga sigri, 99-81.

 

Nú skal enginn vera í vafa. Keflavík spilaði þennan leik ekkert sérstaklega vel, alls ekki. Fjölnir var einfaldlega, hreint út sagt, vonlaus mótspyrna, sem sýndi ekki af sér eina einustu ástæðu fyrir því afhverju þeir væru komnir til leiks í annars flottri efstu deild íslensks körfuknattleiks.

 

Heilt yfir var þetta þó fyrst og fremst leiðindaleikur, sem sagði manni þó þrennt. Það að Keflavík eyða ekki neinu púðri þegar þeir þurfa þess ekki, að Davon Usher, útlendur leikmaður Keflavíkur, virðist allur vera að koma til eftir ansi hæga byrjun fyrir þá (eftir að hann kom til liðs við þá síðustu áramót) og, enn og aftur, hvað Fjölnir eiga innilega ekki innistæðuna sem þarf til að vera í þessari deild.

 

Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Davon Usher, en hann skoraði 33 stig á þeim 29 mínútum sem að hann spilaði í kvöld.

 

Myndasafn #1

Tölfræði 

 

Punktar:

  • Mesta forysta Keflavíkur í leiknum voru 24 stig.
  • Aðeins einn leikmaður Keflavíkur spilaði minna en 10 mínútur í leiknum, en hann var sá hinn sami og (sá eini) sem komst ekki á blað hjá þeim í stigaskorun í leik kvöldsins, en hjá Fjölni voru það þrír leikmenn sem ekki komust á blað h/v stigaskor.
  • Elsti leikmaður beggja liða, Damon Johnson, spilaði næst mest allra í leik kvöldsins, eða um 27 mínútur, en á þeim setti hann 19 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.
  • Nýting Fjölnis fyrir utan þriggja stiga línuna var 8% á meðan hún var 30% hjá Keflavík.
  • Nýting Fjölnis frá gjafalínunni var 73%, á meðan hún var 93% hjá Keflavík, en það var einmitt sá eini sem ekki komst á blað hjá Keflavík, Tryggvi Ólafsson, sem brenndi af vítaskoti fyrir Keflavík í kvöld.
  • Fjölnir gaf 12 stoðsendingar á meðan að Keflavík gaf 21 í leik kvöldsins.
  • Getspakir hefðu getað tekið við þeirri gjöf sem Íslensk Getspá bauð uppá á lengjuseðil þessarar viku fyrir leikinn og við það fjórðungsfaldað þá upphæð sem þeir hefðu lagt undir.

 

 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur

 

 

Keflavík-Fjölnir 99-81 (25-15, 26-25, 29-21, 19-20)

 

Keflavík: Davon Usher 33/5 fráköst/3 varin skot, Damon Johnson 19/4 fráköst, Guðmundur Jónsson 14/7 fráköst, Gunnar Einarsson 8, Valur Orri Valsson 7/6 fráköst/7 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 6/9 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 4, Andrés Kristleifsson 2, Reggie Dupree 2, Eysteinn Bjarni Ævarsson 2, Davíð Páll Hermannsson 2, Tryggvi Ólafsson 0.

 

Fjölnir: Jonathan Mitchell 24/13 fráköst/3 varin skot, Danero Thomas 16/5 fráköst, Sindri Már Kárason 15/5 fráköst, Davíð Ingi Bustion 11/5 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 4, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 4, Garðar Sveinbjörnsson 4, Valur Sigurðsson 2, Bergþór Ægir Ríkharðsson 1/4 fráköst, Árni Elmar Hrafnsson 0, Róbert Sigurðsson 0, Alexander Þór Hafþórsson 0.

 

Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Halldor Geir Jensson

Arnar Freyr – Keflavík:

 

Hjalti – Fjölnir:

 
Fréttir
- Auglýsing -