Keflavík gerði góða ferð í Skagafjörðinn í kvöld þegar Dominos deild karla í körfuknattleik hófst á ný. Lokatölur urðu 77-86 gestunum í vil og Keflavík fær því gott start í deildinni í vetur.
Leikurinn hófst með látum frá heimamönnum sem komust í 8-0 áður en gestirnir áttuðu sig. Þeir voru þó fljótir að jafna sig og komast inn í leikinn og nálguðust heimamenn jafnt og þétt og jöfnuðu leikinn áður en leikhlutinn var úti, staðan 19-19 eftir fyrsta leikhluta. Liðunum gekk frekar erfiðlega að koma boltanum í körfuna í öðrum leikhluta en gestunum þó aðeins betur og þeir leiddu með 7 stigum rétt fyrir leikhlé en glæsilegur and1 þristur frá Simmons á lokasekúndunum lagaði stöðuna aðeins fyrir Tindastól, staðan 41-44 í hálfleik.
Gestirnir frá Keflávík komu svo fljúgandi inn í seinni hálfleikinn og lögðu grunn að sigrinum með glæsilegum 17-2 kafla á fyrstu 4 mínútunum. Heimamönnum gekk illa í sókninni og Deane Williams fór illa með þá á hinum enda vallarins. Tindastóll skipti í svæðisvörn í fjórða leikhluta og náði að minnka muninn í 4 stig, 69-73 þegar 6 mínútur voru eftir með mikilli baráttu en þristur frá Magnúsi og troðsla frá Khalil þögguðu niður í heimamönnum sem náðu ekki að nálgast Keflavík að ráði eftir það.
Sóknarleikur heimamanna var vandræðalegur á köflum í kvöld, eftir frábæra byrjun, enda gestirnir þéttir fyrir í vörninni. Hjá Tindastól var Gerel Simmons atkvæðamestur með 26 stig og var lengst af sá eini sem var alvöru ógn af í sókninni. Aðrir voru daprir og sóknarnýting Tindastóls var afleit, hittu einungis úr 51% skota sinna innan þriggja stiga línunnar og 3ja stiga nýtingin var 23% Gestirnir frá Keflavík voru mun sprækari og gátu alltaf leitað til Milka og Ahmad þegar þá vantaði körfu. Þeir félagar skiluðu samtals 49 stigum og Milka klikkaði nánast ekki með um 70% skotnýtingu innan sem utan teigs. Magnús Már Traustason var frábær að vanda í Síkinu, hitti vel og skilaði 17 stigum. Hörður Axel skoraði ekki mikið en stjórnaði leik gestanna af festu.
Mynd: Deane Williams treður yfir Jaka Brodnik
Viðtal:
Umfjöllun, viðtal og myndir: Hjalti Árna