spot_img
HomeFréttirKeflavík pressaði Blika út úr húsinu

Keflavík pressaði Blika út úr húsinu

Keflavík sigraði Breiðablik í 22. umferð Domino´s deildar kvenna í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í Sláturhúsinu, með 80 stigum gegn 58. Keflavík halda þá velli, í öðru sæti deildarinnar, heilum 10 stigum á undan næstu liðum (Valur & Grindavík bæði með 26) með 36 stig á meðan Breiðablik verma enn neðsta sætið með 4.
 
Fyrir leikinn var svo sem vitað við hverju var hægt að búast frá hvoru liði fyrir sig. Mikið var um fjarvistir mikilvægra leikmanna í hópum beggja liða. Því var mikilvægara fyrir hvort liðið um sig að finna út hvernig sigur mætti vinna út frá þeirri stöðu sem uppi var.

 

Fyrri viðueignir þessara liða í vetur höfðu þó ekki beint verið jafnar. Þann 8. október síðasta árs unnu Keflavík 92-48 sigur á heimavelli, svo var það 68-78 sigur Keflavíkur í Smáranum þann 19.11. og sá síðasti var 55-90 sigur Keflavíkur á sama stað þann 7.01.

 

Síðustu viðureignir hvors liðs fyrir sig þó að öllu leyti ólíkar. Þar sem að Keflavík hafði síðustu helgi haldið til bikarúrslitaleiks gegn Grindavík í Laugardalshöllina og tapað illa. Illa ekki vegna stigamuns, heldur einfaldlega vegna þess að samkvæmt spilamennsku liðsins þennan veturinn hefðu þær aldrei átt að tapa leik gegn neinu liði. Breiðablik hinsvegar atti kappi síðast í deildarleik við lið sem einnig er í botnbaráttu og höfðu sigur gegn KR.

 

Þennan mun stemmingar liðanna mátti finna fyrir í fyrsta leikhluta leiksins. Þar sem að liðin skiptust á að hafa forystuna og ekki mátti með neinu móti sjá hvort liðið væri samkvæmt deildarkeppni við topp og hvort væri við botn.

 

Fyrsti leikhlutinn verður að skrifast á Breiðablik þó. Þar sem að þær náðu að vera á yfir allt þangað til um 4 mínútur lifðu eftir af leikhlutanum, en það var fyrst þá sem að Keflavík náði að jafna leikinn að stigum. Skammgóður vermir þó því á allra vitorði var það væri ekki hvort heldur hvenær Keflavík tæki af skarið og tæki leikinn yfir.

 

Nú skal enginn draga í efa þá hæfileika sem þjálfari Keflavíkur, Sigurður Ingimundarson, hefur til sinna umráða þetta tímabilið. Það skiptir ekkert miklu máli hvaða leikmaður það er sem er inná fyrir þær. Meira máli skiptir hvernig umræddur leikmaður er stemmdur og eftir hvaða skipulagi hann er að spila eftir.

 

Það var einmitt þannig sem þessi leikur vannst þó svo að himinn og haf sé á milli liðanna í deildinni.

 

Snemma í 2. leikhlutanum skipaði Sigurður sínum leikmönnum að pressa Breiðablik allan völlinn. Við það datt botninn úr hetjulegri baráttu Blika þar sem að þær náðu einfaldlega ekki að koma boltanum upp völlinn gegn þessari vel skipulögðu pressu Keflavíkur.

 

Fyrsti leikhlutinn endaði með tveggja stiga forystu heimastúlkna í 15-13 og í hálfleik leiddu þær með sex stigum í 40-34 þar sem að Bryndís Guðmundsdóttir dróg vagninn fyrir þær með 15 stigum og 4 fráköstum. Hjá Breiðablik var það Arielle Wideman sem gerði hvað best en hún setti 9 stig og gaf 4 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum.

 

Eftir hléið mætti Keflavík þó dýrvitlaust til leiks. Þar sem að pressuvörn þeirra hélt áfram að stöðva alla sóknartilburði Breiðabliks á meðan að þær náðu sjálfar að setja einhver stig á móti (fyrstu 5 mínútur 3. leikhlutans fóru 12-2 fyrir heimastúlkum). Svo fór að leikhlutinn endaði í 14 stiga forystu heimastúlkna, 61-47.

 

4. leikhlutinn var svo einhver sá auðveldasti sem að liðið hefur þurft  að (eða á eftir að) spila.  Sjálfvirk stýring til 22 stiga sigurs, 80-58, þar sem að, þó að, sókn Keflavíkur hafi litið út fyrir að vera frumstæð (allan leikinn), áttu mótherjar þeirra úr Kópavoginum hreinlega engin svör við þeirri vörn sem að liðið spilaði.

 

Hatt skal tekinn ofan fyrir baráttugleði Breiðabliks sem að sýndu af sér mikinn hug og vilja til þess að ná í sigur í þessum erfiða leik, þó þeim hafi ekki tekist það. Annan hatt skal svo alveg jafnt tekið ofan fyrir liði Keflavíkur sem barðist bæði án besta leikmanns deildarinnar þetta árið, Carmen Tyson Thomas, sem og án fröken Keflavíkur, Birnu Valgarðsdóttur.

 

Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Bryndís Guðmundsdóttir, en hún skoraði 24 stig (7/11 af vellinum) og tók 9 fráköst  á þeim 33 mínútum sem hún spilaði í kvöld.

 

Punktar:

  • Allir leikmenn Keflavíkur spiluðu 3 mínútur eða meira í leik kvöldsins á meðan að Breiðablik hvíldi 5 leikmenn.
  • Keflavík tók 56 fráköst á móti 36 hjá Breiðablik.
  • Keflavík gaf 17 stoðsendingar á móti 11 hjá Breiðablik.
  • Keflavík for í 19 skipti (74%) á gjafalínuna en Breiðablik í 9 (78%)
  • Keflavík tapaði 28 boltum í kvöld á móti 21 hjá Breiðablik.
  • Af þessum töpuðu boltum átti leikstjórnandi Keflavíkur, Ingunn Embla, 7 tapaða bolta (25%) síns liðs.
  • Allra yngstu leikmenn Keflavíkur áttu góðar innkomur í leik kvöldsins. Elfa Falsdóttir (4 stig/100% nýting – 2 stoðsendingar – 1 stolinn bolti) og Thelma Dís Ágústsdóttir (3 stig – 3 fráköst – 1 stoðsending – 1 stolinn bolti) litu í hvívetna út fyrir að hafa spilað leikinn á þessu “kalíberi” síðastliðin 16 ár, frekar en að vera rétt 16 ára.
  • Það var í 7 skipti jafnt í leiknum.
  • Í 3 skipti skiptust liðin á forystu.
  • Mesti munur Keflavíkur voru 23 stig, en fyrir Breiðablik 5.
  • Aðeins um 50 áhorfendur mættu til Sláturhússins á leik kvöldsins.

 

Myndasafn #1

Tölfræði 

 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur

 

Keflavík-Breiðablik 80-58 (15-13, 25-21, 21-13, 19-11)

 

Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 24/9 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 19/7 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 8/11 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 7, Sandra Lind Þrastardóttir 6/7 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 4/7 fráköst, Elfa Falsdottir 4, Thelma Dís Ágústsdóttir 3, Lovísa Falsdóttir 3, Bríet Sif Hinriksdóttir 2, Irena Sól Jónsdóttir 0, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 0.

 

Breiðablik: Berglind Karen Ingvarsdóttir 15/6 fráköst, Arielle Wideman 12/10 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 10/11 fráköst, Isabella Ósk Sigurðardóttir 10/5 fráköst, Kristbjörg Pálsdóttir 6, Aníta Rún Árnadóttir 5, Arndís Þóra Þórisdóttir 0, Elín Kara Karlsdóttir 0, Hafrún Erna Haraldsdóttir 0, Hlín Sveinsdóttir 0, Kristín Rós Sigurðardóttir 0, Birna Eiríksdóttir 0.

 

Dómarar: Jón Bender, Georg Andersen

 

 

Bryndís – Keflavík:

 

Andri – Breiðablik:

 
Fréttir
- Auglýsing -