Keflavík vann Grindavík í kvöld í Blue-höllinni, 96-87, í þriðju umferð Subway deildar karla.
Grindavík hafði nýverið skrifað undir samning við uppeldisleikmann sinn, Jón Axel Guðmundsson, sem verður að teljast hvalreki fyrir liðið. Á sama tíma vantaði Hörð Axel hjá Keflavík, en hann var ekki í búning í leik kvöldsins þó hann hafi setið á bekknum.
Leikar hófust og Jón Axel byrjaði strax á að setja tvo þrista fyrir Grindavík sem leiddi framan af í fyrsta leikhluta. Um miðbik leikhlutans náðu Keflvíkingar vopnum sínum og komust betur inn í leikinn þó að gestirnir leiddu með þremur stigum eftir 10 mínútur.
Í öðrum leikhlutanum fór allt í kleinu hjá Grindvíkingum og þeir skoruðu ekki stig utan af velli fyrstu fimm mínúturnar að undanskildu tveimur vítaskotum . Keflvíkingar áttu aftur á móti í engum vandræðum með að finna körfuna og tóku á þessu tímabili 18-2 áhlaup. Eftir að hafa tekið þarft leikhlé fóru Grindvíkingar aðeins að finna sig í sókninni betur en gátu ekki minnkað muninn sem skildi. Keflavík leiddi því í hálfleik, 51-36.
Seinni hálfleikurinn fór mjög brösulega af stað og hvorugt liðið virtist vera í góðu flæði eftir að hafa heimsótt búningsklefann. Eftir að liðin hristu af sér slenið að nokkrum mínútum liðnum hófu Grindvíkingar aðeins að ná niður muninum. Keflvíkingar voru þó hvergi bangnir og gestirnir gátu aðeins minnkað muninn um 5 stig fyrir lokaleikhlutann, 64-54.
Bekkur Grindavíkur byrjaði sterkt í upphafi fjórða leikhlutans og gátu minnkað muninn þó að Keflvíkingar hættu ekki að skora. Þá var erlendum atvinnumönnum Grindavíkur sem byrjuðu leikinn skipt aftur inn á og botninn datt alveg úr hjá gestunum. Á nokkrum mínútum var munurinn aftur kominn upp í 15 stig og Grindavík virtist ekki geta fundið leið til að minnka muninn. Leiknum lauk með 9 stiga mun, 96-87.
Það sem virðist hafa riðið baggamuninn var vörn Keflvíkinga og hraði sem skilaði 17 stigum úr hraðaupphlaupum gegn aðeins 2 slíkum stigum hjá Grindavík. Varamenn gestanna úr Grindavík gerðu líka mikið (33 stig af bekk Grindavík gegn 25 hjá bekki Keflavíkur), en það var byrjunarlið Grindavíkur sem lét ekki sjá sig (54 stig hjá byrjunarliði Grindavíkur gegn 71 stig hjá byrjunarliði Keflavíkur).
Atkvæðamestur heimamanna í kvöld var Eric Ayala með 28 stig, 2 stolna bolta og 62% skotnýtingu utan af velli. Honum næstur var Dominykas Milka með 20 stig, 5 fráköst og 7 fiskaðar villur.
Hjá Grindavík var Jón Axel Guðmundsson bestur með 13 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar. Stigahæstur var David Azore með 20 stig.