spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflavík meistarar meistaranna 2024

Keflavík meistarar meistaranna 2024

Keflavík varð í kvöld meistari meistara eftir sigur gegn Val, 98-88. Keflvíkingar komu inn í þennan árlega leik sem bikarmeistarar á meðan Valsmenn eru ríkjandi deildar- og Íslandsmeistarar.

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þar sem liðin skiptust á snöggum áhlaupum. Heimamenn í Keflavík virtust vera ná tökum á leiknum undir lok þess fyrsta, en þá svarar Valur og er tveimur stigum yfir að fjórðungnum loknum, 30-32. Hreint ótrúlegt magn vítaskota var í þessum fyrsta leikhluta, ekkert virtist halla á annað hvort liðið, en í heild voru tekin 25 skot af gjafalínunni. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimamenn svo góðum tökum á leiknum og eru komnir með 12 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 56-44.

Óhætt er að segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið hálfgerður flautukonsert, þar sem leikmenn Vals Hjálmar Stefánsson og Frank Aron Booker voru báðir komnir með 4 villur og þjálfari þeirra Finnur Freyr Stefánsson hafði verið sendur í sturtu eftir að hafa fengið tvær tæknivillur. Ástandið var þó öllu betra hjá Keflavík, en þar var aðeins Marek Dolezaj í brasi, með 3 villur í fyrri hálfleiknum.

Keflvíkingar höfðu áfram góða stjórn á leiknum í upphafi seinni hálfleiksins. Valsmenn reyna hvað þeir geta til að komast aftur inn í leikinn, en munurinn er enn 13 stig fyrir lokaleikhlutann, 76-63. Óhætt er að segja að heimamenn hafi siglt nokkuð lygnan sjó í fjórða leikhlutanum. Halda Valsmönnum í hæfilegri fjarlægð allan fjórðunginn og landa að lokum öruggum 10 stiga sigur, 98-88.

Atkvæðamestur fyrir Keflavík í leiknum var Wendell Green með 26 stig, 7 fráköst og 4 stolna bolta. Honum næstur var Sigurður Pétursson með 10 stig og 7 fráköst.

Fyrir Val var það Taiwo Badmus sem dró vagninn með 22 stigum og 13 fráköstum og honum næstur var Kári Jónsson með 15 stig og 5 stoðsendingar.

Deildarkeppni Bónus deildar karla fer af stað í næstu viku. Í fyrstu umferð mun Keflavík heimsækja Álftanes komandi fimmtudag 3. október, en Valur mætir Stjörnunni í Garðabæ degi seinna föstudag 4. október.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatans)

Fréttir
- Auglýsing -