Haukar fengu Keflavík í heimsókn í kvöld í fimmtu umferð Lengjubikars karla. Keflavík vann öruggan sigur 90-79.
Byrjunarlið Hauka: Arryon Williams, Kristinn Marinósson, Haukur Óskarsson, Davíð Páll Hermannsson og Emil Barja.
Byrjunarlið Keflavíkur: Valur Orri Valsson, Michael Craion, Magnús Þór Gunnarsson, Darrel Keith Lewis og Almar Stefán Guðbrandsson.
Segja má að sigur Keflavíkur hafi aldrei verið í hættu frá því að 40 sek. voru liðnar af leiknum en þá setti Magnús Þór þrist og kom Keflavík yfir í stöðuna 3-0 og héldu þeir forustunni það sem eftir lifði leiks. Haukar komust næst Keflavík í stöðunni 5-7 þegar tæpar þrjár mínútur voru búnar af fyrsta leikhluta en þá tók við 16-3 kafli hjá Keflavík og Haukar farnir að líta út fyrir að ætla verða auðveld bráð.
Kelfavík hélt dampi í fyrri hluta annars leikhluta og yfirspilaði Hauka 19-8 og komust mest 23 stigum yfir. Ekkert gekk hjá Haukum og voru þeir komnir með 10 mislukkaðar sendingar á þessum tíma í leiknum. Haukar náðu aðeins að laga stöðuna en Keflavík leiddi örugglega í hálfleik 46-31.
Værð færðist yfir Keflvíkinga í seinni hálfleik og fóru þeir að missa boltann og eiga slæm skot í seinni hálfleik en það var ekki við að sakast því Haukum gekk einnig illa að skora og staðan því 14 stigum Keflavík í vil eftir þriðja leikhlutann.
Í upphafi fjórða leikhluta náðu Haukar að minnka muninn niður í 10 stig og virtist meðbyrinn vera færast yfir á þá og fóru þeir að eiga von um að eiga möguleika í leiknum. Haukar náðu muninum mest niður í 7 stig eftir glæsilega syrpu hjá Williams þegar hann tróð af þvílíkum krafti í anda Shawn Kemps, þegar hann var uppi á sitt besta, og varði svo sniðskot Craion með miklum látum. En þá kom Magnús Þór til sögunnar og sagði stopp og smellti niður tveimur þristum á rúmri mínútu og gerði endanlega út um leikinn fyrir Keflavík.
Stigahæstir hjá Haukum: Arryon Williams 33 stig/21 frákast, Haukur Óskarsson 16 stig/5 fráköst, Emil Barja 11 stig/9 fráköst/10 stoðsendingar/ 5 stolnir boltar.
Stigahæstir hjá Keflavík: Michael Craion 26 stig/18 fráköst/5 stolnir boltnar, Darrel Keith Lewis 16 stig/8 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 15 stig/4 fráköst.
Leikmaður leiksins: Michael Craion.
Mynd úr leiknum/ Heiða: Maður leiksins, Michael Craion
Umfjöllun/ K. Bergmann