Keflavík lagði Fjölni í Dalhúsum í kvöld í 13. umferð Subway deildar kvenna, 54-89. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 12 sigra á meðan að Fjölnir er í 8. sætinu með 3 sigra eftir fyrstu þrettán umferðirnar.
Best í nokkuð jöfnu liði Keflavíkur í kvöld var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 15 stig og 8 fráköst. Þá skilaði Agnes María Svansdóttir 10 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum í sínum síðasta leik í bili fyrir Keflavík, en hún mun nú um áramótin halda vestur um haf í bandaríska háskólaboltann.
Fyrir heimakonur í Fjölni var það Korinne Campbell sem var atkvæðamest með 21 stig og 12 fráköst. Henni næst var Raquel Laneiro með 17 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.
Bæði lið eru nú komin í jólafrí, en þann 2. janúar leika þau næst er líkt og í kvöld heil umferð verður leikin í deildinni. Þá mún Keflavík fá Hauka í heimsókn og Fjölnir mætir nýliðum Snæfells í Stykkishólmi.