spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaUmfjöllun og viðtöl: Keflavík með sigur gegn Val í N1-höllinni

Umfjöllun og viðtöl: Keflavík með sigur gegn Val í N1-höllinni

Valur tók á móti Keflavík í kvöld í N1-höllinni að Hlíðarenda. Fyrir leikinn voru bæði lið með einn sigur og einn ósigur og því ljóst að það lið sem ynni yrði réttu megin við strikið í unnum leikjum og töpuðum. Keflavík átti fleiri góðar leikfléttur og áhlaup og unnu að lokum með 6 stigum, 73-79.

Nýjir leikmenn beggja megin

Valsstúlkur voru búnar að skipta út bandaríska leikmanninum sínum fyrir nýjan milli síðasta leiks og þessa. Jiselle Thomas kom til landsins á sunnudaginn og var því augljóslega ekki alveg komin inn í öll kerfi hjá liðinu. Hún sýndi þó glefsur af góðum töktum í leiknum (þar með taldar 7 stoðsendingar).

Keflavík hafði líka bætt við sig en hjá þeim var lettneskur leikmaður að nafni Katrina Trankale. Hún virtist aðeins öruggari með sig í fyrsta leik en á eflaust mikið inni sömuleiðis.

Alexandra Eva Sverrisdóttir kom fersk inn eftir meiðsli og átti nokkur góð andartök í leiknum. Hún var þó langt frá sínu besta og virðist enn vera að finna taktinn eftir fjarveru sína.

Gangur leiksins

Keflavík hóf leikinn á smá flugeldasýningu og voru komnar í 8-1 forystu á rúmum tveimur mínútum. Valsstúlkur komu þá til baka og jöfnuðu metin og gott betur með 13-4 áhlaupi. Það komst aðeins betri jafnvægi á leikinn sem varði ekki lengur en í nokkrar mínútur áður en Keflvíkingar tóku sitt eigið 14-0 áhlaup og lokuðu leikhlutanum 30-16.

Áfram héldu Keflvíkingar að breikka bilið en Valur tók aðeins við sér og minnkaði muninn meðan bandarískur leikmaður Keflavíkur hvíldi í öðrum leikhlutanum. Ásta Júlía, miðherji Vals, fékk þriðju villuna þegar tvær mínútur lifðu fyrri hálfleiks og þurfti því að fara út af vegna villuvandræða. Þrátt fyrir það héldu Valsstúlkur áfram að saxa á muninn og skildu við í hálfleik í stöðunni 45-52, Keflavík í vil.

Jafnvægi var á með liðunum í byrjun seinni hálfleiks og munurinn hélst í kringum 5-9 stig. Nýr bandarískur leikmaður Vals, Jiselle Thomas, fór loks í gang og skilaði nokkrum mikilvægum leikfléttum (skoruð stig, sóknarfráköst og stoðsendingar). Oft virtist annað liðið ætla að taka áhlaupið og þar með völdin í þriðja leikhluta, en þá kom alltaf svar á hinum enda vallarins. Það var ekki fyrr en á seinustu mínútunni að Valur gat aðeins gripið meðbyrinn og lokuðu leikhlutanum með fimm góðum stigum (öllum frá Dagbjörtu Döggu) og staðan því 61-65 við upphaf fjórða leikhlutans.

Lokafjórðungurinn einkenndist af mistökum beggja liða framan af sem liðin gátu refsað hvert öðru fyrir. Inni á milli komu geggjuð skot sem rötuðu rétta leið og ljóst var að Valur þurfti bara eitt gott áhlaup til að brúa bilið og gera þetta að leik á lokakaflanum. Allt kom þó fyrir ekki og Keflavík sigldi 73-79 sigri í höfn.

Tölfræði leiksins

Atkvæðamestar

Fyrir Keflavík var Jasmine “Jazz” Dickey atkvæðamest, en hún skilaði 28 stigum, 12 fráköstum, 5 stoðsendingum og 4 stolnum boltum. Anna Ingunn Svansdóttir var líka góð fyrir gestina, en hún skoraði 19 stigum í leiknum og klikkaði ekki á skoti fyrstu 15 mínútur leiksins (þrír þristar, tvö tveggja stiga skot og þrjú vítaskot, öll beinustu leið niður).

Tvær sem skoruðu ekki mikið en voru þó mikilvægar fyrir Keflavík voru þær Bríet Sif Hinriksdóttir og Katrina Trankale. Samanlagt skoruðu þær 11 stig en þær voru báðar með hærra en 10 í +/- í leiknum (lið þeirra vann með 10 stigum þær mínútur sem þær voru inn á).

Hjá heimastúlkum var Ásta Júlía Grímsdóttir best með 19 stig, 16 fráköst (þ.a. 11 sóknarfráköst) og 4 stoðsendingar. Alyssa Cerino var líka góð með 17 stig, 9 fráköst og þrjú varin skot og Dagbjört Dögg Karlsdóttir lagði líka sitt til með 15 stig, 5 fráköst og þrjár stoðsendingar.

Vendipunkturinn

Vendipunkturinn var mögulega áhlaupið sem kom aldrei hjá Val. Þær voru oft 4-6 stigum frá Keflavík en gátu ekki klárað dæmið þegar mest reið á. Þær hefðu auðvitað líka getað stöðvað áhlaup Keflavík fyrr og með meira afgerandi hætti svo að munurinn væri ekki svo mikill undir lokin.

Kjarninn

Þá eru þrír leikir búnir og Keflavík er með 2-1 sigurhlutfall en Valur 1-2. Það er auðvitað mikið eftir af tímabilinu en í deild sem gæti verið nokkuð jöfn í ár skiptir hver einasti sigur máli.

Hvorugt lið átti sinn besta leik og þau eiga bæði mikið inni, en þá skiptir ennþá meira máli að klára dæmið í leikjum sem þessum. Að þessu sinni var það Keflavík, en næst gæti það orðið Valur. Hver veit?

Fréttir
- Auglýsing -