spot_img
HomeFréttirKeflavík með öruggan sigur

Keflavík með öruggan sigur

 Keflavík komst í 2-1 þegar þær tóku á móti KR í Toyota-höllinni í kvöld. Heimakonur byrjuðu af krafti og létu forystuna aldrei af hendi. Þægilegur og sanngjarn sigur Keflavíkur, 72-51, og geta þær orðið Íslandsmeistarar með sigri í DHL-höllinni á mánudag.
 
Keflavík hóf leikinn af krafti í kvöld og komust í 12-0 áður en KR náði að skora sín fyrstu stig. Vörn heimakvenna var til fyrirmyndar og höfðu gestirnir engin svör við þeim. Í sókn Keflavíkur var sú gamla, Birna Valgarðsdóttir, sjóðandi heit og skellti niður þremur þriggja stiga körfum á stuttum tíma og sýndi að hún er alveg með þetta ennþá.
 
Gestirnir vöknuðu aðeins í öðrum leikhluta og fóru að bíta frá sér. Varnarleikur þeirra hertist til muna og fóru þær að gera Keflavík erfiðara fyrir að skora heldur en þær gerðu í þeim fyrsta. Þær voru hins vegar ekki að nýta sóknir sínar nægilega vel en með góðri baráttu og nokkrum sóknarfráköstum náðu þær að minnka muninn niður í 12 stig. Heimakonur gáfu þó í í lok leikhlutans og með þriggja stiga skoti frá Jessicu Jenkins, úr ómögulegri stöðu, voru þær með 16 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 36-20. Keflavík voru að spila frábæra vörn á McCallum sem var aðeins með 4 stig í hálfleik og munar það um minna fyrir KR-ingana.
 
Þriðji leikhluti fór mjög svipaður og sá annar þar sem KR reyndu að berja sig inn í leikinn en sama hvað þær börðust mikið var alltaf eins og heimakonur svöruðu um hæl. Gestirnir börðust vel í sóknarfráköstunum en náðu ekki að nýta tækifærin sem þeim gáfust.
Loka leikhluti leiksins var algjörlega í eigu Keflavíkur sem spilaði frábærlega hvort sem það var í sókn eða vörn. Samspil liðsins var frábær, sem gaf þeim oft á tíðum auðveldar körfur og stopp í vörninni. Allt var skellt í lás þar sem þær héldu KR í aðeins 9 stigum í leikhlutanum. Sigur Keflavíkur var aldrei í hættu í kvöld og fóru þær að lokum með nokkuð auðveldan sigur, 72-51, og eru því komnar í 2-1 í rimmunni.
 
Hjá Keflavík var það liðsheildin sem stóð upp úr, en þeirra stigahæstu leikmenn voru Birna Valgarðsdóttir og Jessica Jenkins með 17 stig hvor. Birna bætti síðan 12 fráköstum við og Jenkins 6 stoðsendingum.
Hjá KR var Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir stigahæst með 11 stig en þeirra stigahæsti leikmaður í vetur var í strangri gæslu allan leikinn og endaði Shannon McCallum með 9 stig og 14 fráköst.
 
 
Umfj: RKR
 
Fréttir
- Auglýsing -