spot_img
HomeFréttirKeflavík með öruggan sigur

Keflavík með öruggan sigur

 Keflavík sigraði KR í kvöld þegar þær röndóttu heimsóttu TM höllina í Keflavík. 99:61 var lokastaðan í leiknum og óhætt að segja að sigurinn hafi komið fáum á óvart og var verðskuldaður. 
 
KR konur mættu laskaðar til leiks en Britnay Wilson erlendi leikmaður þeirra meiddist illa í síðasta leik þegar hún sleit hásin og augljóst að hún spilar ekki meira með KR í það minnsta á þessu tímabili.  En Keflavíkurkonur voru fljótar að koma sér í gott forskot og strax eftir 4 mínútna leik var staðan 14:2 Keflavík í vil. En Finnur þjálfari KR splæsti þá í 2-3 svæðisvörn sem hægði vel á Keflavíkurliðinu. Svo vel í raun að þær áttu í mesta basli með að finna sér auðvelda leið að körfu KR.  Á þessum tíma náðu KR konur að minnka muninn niður en náðu hinsvegar aldrei að komast yfir. 
 
Það var svo í þriðja leikhluta að Keflavík tók leikinn í sínar hendur. 8 stig í röð frá Hallveig Jónsdóttir setti tóninn fyrir það sem koma skildi.  Fanta góð vörn Keflavíkur var svo að skila þeim auðveldum körfum hinumegin á vellinum og eftir þennan kafla áttu KR stúlkur aldrei möguleika á sigrinum.  Þeim hinsvegar til hróss að þrátt fyrir að útlitið væri tja dökkt væri í raun að fegra það, þá gáfust þær aldrei upp og héldu alltaf áfram að reyna sitt með mismiklum ágætum.  Það eitt og sér á er gott veganesti fyrir framhaldið þó svo að liðið hafi ekki náð að innbyrða sigur eftir þrjár umferðir. 
 
Keflavíkurliðið hefur bætt við sig frá síðasta tímabili. Ekki þá bara leikmönnum heldur eru þeir ungu leikmenn sem fyrir voru að nýta sér þá reynslu sem síðasta tímabil var fyrir þær.  Liðið er gríðarlega vel mannað en helst til ungt að árum og það eitt gæti hrjáð þær í vetur en undirritaður verður virkilega hissa ef liðið nái ekki að hampa í það minnsta einum titli eftir veturinn. Í kvöld væri erfitt að taka út einn leikmann sem stóð uppúr.  Hallveig sem fyrr segir átti góðan sprett sem Bríet Sif Hinriksdóttir fylgdi svo vel á eftir.  Stigahæst var Sara Rún Hinriksdóttir hjá Keflavík en hjá KR var það Björg Einarsdóttir sem leiddi stigaskorið.  Tölfræði leiksins hefur enn ekki borist á netið sökum slæglegs internet sambands í Keflavíkinni. 
 
Mynd/Umfj: SbS
 
Fréttir
- Auglýsing -