Keflavík lagði Val með minnsta mun mögulegum

Keflavík lagði Val í kvöld í þriðju umferð Subway deildar karla, 87-86.

Fyrir leik

Valsmenn höfðu farið nokkuð vel af stað á tímabilinu og unnið báða sína leiki gegn Hamri og Þór á meðan að Keflavík var með sigur á móti Hamri, en þeir höfðu svo tapað fyrir Íslandsmeisturum Tindastóls í síðustu umferð.

Nokkuð vantaði í bakvarðasveit Vals í leiknum þar sem bæði Kári Jónsson og Ástþór Atli Svalason voru frá vegna meiðsla í leiknum.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þó hvorugu liði hafi gengið neitt sérstaklega vel að koma stigum á töfluna. Liðin skiptust í ein fimm skipti á forystunni í fyrsta leikhlutanum, en að honum loknum leiddi Valur með 3 stigum, 19-22. Valur nær svo góðu áhlaupi um miðjan annan leikhlutann þar sem þeir ná að búa til þægilegt bil á milli sín og Keflavíkur. Hrista þá þó ekki alveg af sér, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 12 stig, 39-51.

Stigahæstur Keflavíkinga í fyrri hálfleiknum var Marek Dolezaj með 11 stig á meðan að Kristófer Acox var kominn með 14 stig fyrir Val.

Með nokkrum stemningsþristum frá Sigurði Péturssyni nær Keflavík að vinna sig aftur inn í leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Ná að jafna leikinn og komast yfir í fyrsta skipti síðan á upphafsmínútum leiksins áður en Valur nær aftur að vera skrefinu á undan inn í lokaleikhlutann, 60-66. Leikurinn er svo nokkuð jafn fram á brakmínúturnar, en þegar tvær eru til leiksloka er aðeins þriggja stiga bil á milli liðanna, 81-84. Keflavík nær svo að koma sér í færi til þess að vinna leikinn undir lokin og setur Remy Martin niður erfiðan þrist fyrir þá til þess að koma þeim í 87-86. Kristófer Acox fær ágætis tækifæri til að vinna leikinn undir lokin, en allt kemur fyrir ekki, Keflavík sigrar, 87-86.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Keflavíkur í kvöld var Igor Maric með 18 stig, 4 fráköst og flotta 6 af 9 nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Fyrir Val var það Kristófer Acox sem dró vagninn með 18 stigum og 14 fráköstum.

Hvað svo?

Keflavík á leik næst komandi fimmtudag 26. október gegn Haukum í Ólafssal, en Valur á leik degi seinna gegn Stólunum í Síkinu.

Tölfræði leiks