Keflavík sigraði Snæfell með 75 stigum gegn 67 í Domino´s deild kvenna á heimavelli þeirra fyrrnefndu, í TM Höllinni í Keflavík. Úrslitin að einhverju leyti óvænt þar sem að þarna var á ferðinni lið Keflavíkur í 5. sæti deildarinnar að taka á móti toppliði Snæfells. Síðast þegar að liðin mættust fór Snæfell með 28 stiga sigur af hólmi í leik sem var aldrei spennandi.
Í fyrri hálfleik þessa leiks virtist þó annað vera uppi á teningnum en þá. Þó Snæfell hafi verið með forystuna lungað af fyrr hálfleiknum, voru Keflavíkurstúlkur aldrei langt undan. Fyrsti leikhlutinn endaði í járnum 15-15 og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik voru gestirnir úr Stykkishólmi með 3 stiga forystu 34-37.
Miklu munaði um þð fyrir heimastúlkur hversu illa þær voru að tapa frákastabaráttunni í fyrri hálfleik (18-39), en skotnýting gestanna vóg á móti þar sem þær náðu aðeins að nýta sér 12 af þeim 45 skotum sem þær tóku í fyrri hálfleiknum.
Mestu munaði um framlag Melissa Zorning fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum (10 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar) á meðan að fyrir Snæfell var það Bryndís Guðmundsdóttir sem dróg vagninn (10 stig og 8 fráköst)
Spennan hélt áfram í seinni hálfleiknum. Eftir þriðja leikhlutann var munur gestanna kominn niður í 1 stig, 52-53. Þar sem að Keflavík hafði í restina gert heljarinnar áhlaup (7-0) og komist yfir í 52-50 áður en Snæfell svo svaraði og kom stöðunni aftur sér í vil.
Fjórði og síðasti leikhluti leiksins var svo mestallur í takt við leikinn þangað til. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútum leiksins sem heimastúlkur í Keflavík sigldu hægt, en örugglega fram úr toppliðinu. Þegar mest lét var munurinn kominn í 10 stig fyrir Keflavík, en leikurinn endaði með 8 stiga sigri þeirra, 75-67.
Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, áðurnefnd Melissa Zorning, en hún skoraði 30 stig og tók 8 fráköst á þeim 35 mínútum sem hún spilaði í leiknum.
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur