Keflavík rígheldur í annað sætið með Skallagrím en í kvöld sigruðu þær gesti sína úr Hafnarfirði með 82 stigum gegn 61. Lokastaða leiksins segir lítið til um gang leiksins þar sem að Keflavík hafði vissulega forystu en það var ekki fyrr en á lokakaflanum að þær náðu að loka þessum leik almennilega. Keflavík leiddi í hálfleik 37:30.
Vendipunkturinn
Keflavík var í bílstjórasætinu allan leikinn og leiddu með þessum 4 til 7 stigum að megninu til. Haukar alltaf hænuskrefinu á eftir og hefðu hæglega getað stolið sigrinum. En vendipunkturinn kom í fjórða leikhluta þegar Þóra Jónsdóttir gerði sig seka um óíþróttamannslega villu á Þórönnu Kika Hodge. Þóranna skoraði, fékk tvö víti sem hún setti niður og svo skoraði Keflavík úr sókn sinni. 6 stig í þessari sókn og eftir þetta silgdu Keflavík sigrinum nokkuð örugglega í höfn.
Hetja leiksins
Erfitt er að tala um hetju leiksins hjá Keflavík en við hendum þessu á liðsheildina sem skóp þennan sigur að mestu. Stigaskor leikmanna skiptist vel á mannskapinn, engin ein skaraði framúr en hinsvegar má nefna framlagið af bekknum í kvöld hjá báðum liðum. Birna og Þóranna hjá Keflavík að sýna glimmrandi takta og svo Ragnheiður Einarsdóttir hjá Haukum sem kom einnig öflug inn og skilaði fínu framlagi.
Kjarninn
Eins og staðan er í dag eru Keflavík einfaldlega betra lið en Haukar og sigurinn var verðskuldaður. Þær eru að spila vel saman þó svo að alltaf megi bæta margt og það er ekki seinna en vænna því stutt í úrslitakeppni. Blóðtaka nær varla yfir það sem gerðist fyrir þetta Haukalið frá síðasta vetri þegar kemur að leikmannamálum. En liðið líkt og Keflavík skipað ungum árennilegum leikmönnum sem eiga svo sannarlega eftir að láta taka til sín á komandi árum. Frábær barátta í liðinu og þrátt fyrir erfiðar loka mínútur hættu þær aldrei að berjast fyrir sínu.
Myndir og umfjöllun / SbS