Keflavíkurstúlkur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni nú fyrir stundu. 69:85 var lokastaða leiksins og Keflavíkurstúlkur vel að þessu sigri komnar. Ingunn Embla Kristínardóttir var svo að lokum kjörin maður leiksins en hún skilaði 21 stigi, 10 fráköstum og 5 stoðsendingum á félaga sína.
Það var jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar en Keflavík seig síðan aðeins framúr. Njarðvíkurstelpur gáfust hinsvegar ekki upp og héldu uppi stemmningunni. Elísabet Guðnadóttir endaði leikhlutann á því að setja niður þrist fyrir Njarðvík og staðan að fyrsta leikhluta loknum 22:17 Keflavík í vil og leikurinn galopinn.
Keflavíkurstúlkur héldu forystunni í gegnum annan leikhluta og hleyptu þeim grænu aldrei inn fyrir alvarleg hættumörk. Elínóra Einarsdóttir setti þrjá risastóra þrista fyrir Keflavík í öðrum leikhluta en karakter og stemmning Njarðvíkurkvenna hélt þeim inní leiknum. Hálfleikstölur 31:38 Keflavík í vil. Ingunn Embla hafði þá þegar gert 10 stig fyrir Keflavík en Guðlaug Júlíusdóttir var stigahæst hjá Njarðvík með 11 stig.
Keflavíkurstúlkur komu kröftugri til leiks úr hálfleikhléinu og komust snemma í þriðja leikhluta 12 stigum yfir. Njarðvík voru þó fljótar að minnka muninn og voru aldrei langt undan. Að þriðja leikhluta loknum stóðu leikar 50:58 Keflavík í vil en samt sem áður ennþá góður séns fyrir þær grænklæddu. Keflavík virtust aftur vera að taka þægilega forystu í byrjun fjórða leikhluta en náðu ekki að stíga skrefið. Um miðbik leikhlutans áttu þær hvítklæddu hinsvegar flott áhlaup sem varð til þess að Njarðvík tóku leikhlé í stöðunni 58:72. Keflavíkurstúlkur efldust þó bara ef eitthvað er eftir leikhléið og unnu að lokum sannfærandi sigur 69:85
Umfjöllun og mynd: Adam Eiður