Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki kvenna eftir sigur á Haukum í úrslitaviðureign liðanna í Smáranum í Kópavogi. Lokatölur voru 58-52 Keflavík í vil sem höfðu töglin og hagldirnar allan leikinn. Sara Rún Hinriksdóttir var valin besti leikmaður úrslitaleiksins með 20 stig, 18 fráköst og tvo stolna bolta.
Það var aðeins eitt lið mætt í fyrsta leikhlutann og það var Keflavíkurliðið sem lék þétta vörn og keyrði vel í bakið á Haukum við hvert tækifæri sem gafst. Sara, Sandra og Telma Lind sáu um stigaskorið og Aníta Viðarsdóttir bætti við þrist undir lok fyrsta leikhluta og Keflvíkingar leiddu 23-11 eftir fyrstu tíu mínúturnar. Fát á Haukum sem virtust enn vera á leið sinni í Smárann úr Hafnarfirði.
Sara Rún opnaði annan leikhluta með fimm stiga syrpu og ekkert lát virtist vera á Keflavíkurhraðlestinni, Bríet bætti við þrist og Keflavík komst í 33-17 en þá loks virtust Haukar mæta í hús. Annað systrapar, Sylvía Rún og Margrét Rósa, tóku til sinna ráða í Haukaliðinu sem hélt inn í 12-0 lokasprett í öðrum leikhluta en Keflavík kom að einni körfu fyrir leikhlé og staðan 35-29 í hálfleik.
Keflvíkingar náðu muninum fljótt upp og yfir 10 stigin í þriðja leikhluta. Sara Rún Hinriksdóttir var einfaldlega að reynast Haukum ill viðureignar. Lítið var skorað og Haukar sættu sig illa við að Keflvíkingar fengju að leika stífa vörn og fyrir vikið urðu rauðar ragari við að sækja á körfuna. Bríet Sif Hinriksdóttir kom svo með sterkan þrist fyrir Keflvíkinga og breytti stöðunni í 48-37 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta hlutann.
Í fjórða leikhluta hófst þetta í miklum lás, liðin gátu vart skorað þó þau ættu lífið að leysa en Lovísa Björt Henningsdóttir kveikti smá von í röðum Hauka þegar rúmar fimm mínútur voru eftir er hún skellti niður þrist og minnkaði muninn í 52-44. Skömmu síðar var Sara Rún á ferðinni með þrist fyrir Keflavík og staðan 55-45, saga leiksins í hnotskurn, allar sparihliðar Hauka sem skutu upp kollinum voru jafnan kvaddar í kútinn af Keflvíkingum. Þó á móti hafi blásið hvað dómgæsluna varðar í ranni Hauka þá er það ekki veggur til að skýla sér við, ráðleysi í sóknarleiknum, döpur skotnýting og harðákveðnar Keflavíkurkonur voru það sem höfðu úrslitaáhrif í dag. Lokatölur 58-52 fyrir Keflavík og þó vonbrigðin hafi vissulega verið mikil í röðum Hauka þá er það til siðs að vera viðstaddur verðlaunaafhendinguna allt til enda.
Sara Rún Hinriksdóttir gerði 20 stig, tók 18 fráköst og stal 2 boltum í liði Keflavíkur en fjórir aðrir leikmenn bættu við 9 stigum í dag, þær Aníta Viðarsdóttir, Bríet Sif Hinriksdóttir, Sandra Lind Þrastardóttir sem einnig var með 12 fráköst og Telma Lind Ásgeirsdóttir. Hjá Haukum var Lovísa Björt Henningsdóttir með 15 stig og 10 fráköst, Margrét Rósa bætti við 14 stigum og 9 fráköstum og Sylvía Rún var með 13 stig og 10 fráköst.
Sara Rún Hinriksdóttir besti leikmaður úrslitaleiksins ásamt Hannesi Jónssyni formanni KKÍ