spot_img
HomeFréttirKeflavík höfðu það í Hólminum

Keflavík höfðu það í Hólminum

 
Snæfellsstúlkur létu ekki sterkt Keflavíkurliðið vaða uppi fyrstu mínúturnar og léku fína vörn. Þegar á leið fyrsta hluta sigu Keflavíkurstúlkur þó aðeins lengra frá og komust í 10-18 eftir nokkur mistök Snæfells. Heimastúlkur hresstust þó við og náðu að klóra sig nær í 14-18 og ætluðu ekki Keflvíkingum að vera auðveld bráð. Gestirnir áttu þó síðasta orðið í fyrsta hluta og var staðan 14-19.
Snæfell gerði of mörg mistök í sendingum og Keflavík tók góða pressu sem kom þeim í 19-32 um miðjann annann hluta. Bryndís Guðmunds var að leika vel fyrir Keflavík sem og Kristi Smith sem dró vagninn með henni. Birna Valgarðs kom sterk inn og barðist gríðarvel. Staðan í hálfleik var 26-40 fyrir Keflavík en Snæfellsstúlkur voru að vakna eilítið í lok hlutans.
 
Hjá Snæfelli var Sherell Hobbs komin með 10 stig og 9 fráköst en hjá Keflavík voru Bryndís og Kristi með 10 stig hvor og Bryndís 7 fráköst að auki.
 
Lítið var skorað framan af þriðja hluta og var staðan orðin 29-45 eftir 5 mínútna leik. Bæði lið fengu skotin og færin en nýttu afar illa. Það var hlutskipti Snæfells að elta í leiknum og áttu þær erfitt með að vinna upp þann 20 stiga mun sem kominn var í stöðunni 33-53. Keflavík leiddi 38-56 fyrir lokahlutann.
 
Keflavík leiddi örugglega út í fjórða hluta en eftir miðjann hlutann fór Snæfell að taka á í vörninni og spila með látum þar sem Björg Guðrún fór hamförum fyrir Snæfell og skoraði 7 stig í röð en það kom þeim ekki langt þó baráttuandinn væri til staðar þrátt fyrir 20 stiga mun 51-71. Bæði lið skoruðu á víxl og var fjórði leikhluti mjög jafn en það sem stóð upp úr þrátt fyrir tap í leiknum var barátta Snæfellsstúlkna undir lokin. Keflavík sigraði 65-81 og komu sér snemma í þægilega stöðu í leiknum.
 
Hjá Snæfelli endaði Sherell Hobbs með 17 stig og 10 fráköst. Björg Guðrún með 14 stig og Gunnhildur Gunnars með 10 stig. Hjá Keflavík kom Birna Valgarðs gríðalega sterk inn með 19 stig og 8 fráköst og Bryndís Guðmunds 18 stig og 14 fráköst. Kristi Smith 12 stig og Rannveig Randversd 10 stig.
 
 
Texti: Símon B.Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -