spot_img
HomeFréttirKeflavík hirti stigin úr Hólminum

Keflavík hirti stigin úr Hólminum

Toppslagur í Stykkishólmi en fyrir leikinn áttu Snæfellsstúlkur ekki möguleika að skáka Keflavík úr efsta sæti en þar eru þær með 22 stig en Snæfell í öðru sæti með 18 stig.
 
Snæfellsstúlkur voru sprækari á fyrstu skrefunum og Keflavík batt ekki vörnina sem best saman. Snæfell komst í 15-6 en Keflavík náði að spjalla sig saman og vera ákveðnari í aðgerðum sínum og löguðu stöðuna 15-10. Keflavík pressaði en það bar ekki tilætlaðann árangur og Snæfell leiddi 21-12 eftir fyrsta hluta en Snæfell voru að ná flestum lausum boltum.
 
Keflavík komst nær strax í öðrum hluta og voru að hitna 21-17 með þremur frá Jessica Ann en Snæfellsstúlkur stilltu miðið og Alda Leif svaraði með einum þegar þær leiddu 26-20. Pálína lagaði stöðuna 28-25 og Keflavík komst svo yfir 30-31 með öðrum þrist frá Pálínu á meðan Snæfell missti niður sóknarleik sinn með slakri nýtingu og töpuðum boltum. Alda Leif var ekki á því hleypa þessu upp og svaraði með þrist 33-31 og var að stíga upp í leik Snæfells. Staðan í hálfleik var 37-36 fyrir Snæfell eftir jafnar lokamínútur í fyrri hálfleik.
 
 
Í liði Snæfells var Alda Leif komin með 11 stig og Kieraah Marlow með 10 stig. Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugs eldspræk með 13 stig og Birna Valgarðsdóttir var einnig á skotskónum með 13 stig.
 
 
Liðin héldu áfram að skiptast á forystu í þriðja hluta en undir hann miðjann tóku Keflavíkur stúlkur af skarið og með góðri vörn og flottum skotum komust þær í 44-51 þar sem Jessica Ann setti niður hvert stórskotið af fætur öðru og þær komust í forystuna 46-57. Munurinn var 10 stig eftir þriðja hluta 47-57.
 
 
Snæfell komu sterkar í byrjun fjórða hluta og minnkuðu strax í fjögur stig 53-57. Munurinn var 5 stig um miðjan hlutann 60-65 fyrir Keflavík og Snæfell náði niður í tvö stig 63-65. Kieraah Marlow minnkaði munin í 70-72 þegar 30 sek voru eftir með tveimur stigum og víti. Snæfell náði boltanum þegar 13 sekúndur voru eftir og brunuðu í sókn þar sem skot geigaði og brotið var á Söru Rún sem setti tvö víti niður 70-74 þegar 3 sekúndur voru eftir og Snæfell náði ekki að nýta sér það og Keflavík sigraði sinn tólfta leik í deildinni.
 
 
Snæfell: Kieraah Marlow 21/14 frák/4 stoðs. Hildur Björg 14/9 frák. Alda Leif 14/8 frák. Hildur Sigurðardóttir 11/5 frák/6 stoðs. Helga Hjördís 8/10 frák. Ellen Alfa 2. Rósa Kristín 0. Silja 0. Rebekka 0.
 

Keflavík: Jessica Ann Jenkins 21. Pálína Gunnlaugsdóttir 20/10 frák/5 stoðs. Birna Valgarðsdóttir 20/9 frák. Ingunn Embla 5/6 frák/4 stoðs. Sara Rún 4/7 frák. Bryndís Guðmundsdóttir 4/4 frák. María Ben 0. Katrín 0. Telma 0. Sandra Lind 0. Aníta 0. Bríet Sif 0.
 
 
“Við byrjuðum illa og þær voru að jarða okkur í byrjun, áttum í tómu basli með að skora og vörnin okkar lek og þær náðu öllum fráköstum. Við náðum svo að laga vörnina vel og sóknin kom þar með þar sem við settum nokkur stór skot í seinni hálfleik sérstkalega og þá fór þetta að koma hjá okkur” sagði Sigurður Ingimundarson eftir tólfta sigurleik Keflavíkurstúlkna í 12 umferðum og eru þær þar með komnaar með 24 stig 6 stigum á undan Snæfelli.
 
 
Ingi Þór var brattur þrátt fyrir fyrsta tap kvennaliðs Snæfells á heimavelli í vetur. “Mér fannst við gera margt gott til þess að reyna að vinna leikinn. Þriggja stiga kaflinn þeirra í þriðja leikhluta þar sem þær komast 11 stigum yfir er stór þegar skorið er ekki hærra en þetta. Ég var ánægður með að við náðum að koma til baka og gefa okkur séns í að vinna leikinn eða ná framlengingu og getum tekið margt gott úr leiknum. Það er langt í land ennþá og mótið er ekki hálfnað og við erum brattar þrátt fyrir tapið”
 
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
  
Fréttir
- Auglýsing -