spot_img
HomeFréttirKeflavík hirti heimavöllinn

Keflavík hirti heimavöllinn

Keflavík sigraði Hauka í fyrsta leik í rimmu þeirra í 8 liða úrslitum úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli þeirra í Schenker höllinni í Hafnarfirði með 86 stigum gegn 79. 
 

 

Síðast áttust þessi tvö lið einmitt við, á þessum sama stað, í síðustu umferð deildarkeppninnar. Þar fóru Haukar með 6 stiga sigur af hólmi í leik sem var lélegur hjá báðum liðum – einróma álit.

 

Þessi leikur þó hluti af algjörlega nýju móti, ef svo má að orði komast (úrslitakeppninni) og því til sönnunar splæstu heimamenn í dýrari týpuna af ljósasýningu til þess að kynna sína leikmenn fyrir þeim fjölmörgu spenntu áhangendum sínum sem lagt höfðu leið sína að vígvellinum þetta kvöldið.

 

 

Í upphafi virtust bæði lið þó leika eilítið óöruggt. Hjá Keflavík virtist gjörsamlega allt sóknarlegt þurfa að bæði byrja og enda hjá Davon Usher, en þó hann hafi að miklu leyti verið þess trausts verður, þá leit það hreint skelfilega út fyrir saklausan áhorfandann. Heimamenn fóru þó mun betur af stað og gátu stært sig af 6 stiga forystu (12-6) þegar fyrsti leikhlutinn er rétt rúmlega hálfnaður. Eftir þessa slöppu byrjun náðu gestirnir þó aðeins að rétta úr kútnum. Leikhlutinn endaði í núllinu (19-19) en nokkuð ljóst var af spilamennsku þeirra að eitthvað væri nú til af skipulagsleysi, óöryggi og taugaspennu hjá þeim báðum.

 

Annar leikhlutinn hófst að miklu leyti á sömu nótum og sá fyrsti endaði. Einstaklingsframtakið (sá er hafði kjark) virtist enn ráða ríkjum í sóknarleik liðanna. Fyrir gestina úr Keflavík varð það um þetta leyti hinsvegar lán í óláni eftir að þeir ákváðu að hvíla tilraunir Usher fyrir hinn kana liðssins (minni spámann) Reggie Dupree sem upp á sitt einsdæmi setti hvert skotið af fætur öðru (4/5 fyrir utan í leikhlutanum) Eftir þessa snöggu frammistöðu hans og það forskot sem hann vann inn fyrir sína menn náðu Haukar þó nokkuð örugglega að vinna það niður og slengja 4 stiga (39-35) mun með sér til klefa í hálfleik.

 

 

Einhver hefur ræða Ívars (þjálfara Hauka) verið í hálfleik. Því í seinni hálfleiknum byrjuðu hans menn á frambærilegasta áhlaupi leiksins til þessa. Þar sem á tímabili var munurinn kominn í tveggja stafa tölu. Þetta náðu Haukar þó ekki að byggja neitt ofaná, eða halda í. Þriðji leikhlutinn endaði í sama mun og inní hann hafði verið farið, með 4 stigum (60-56). Munurinn hefði verið 7 stig, en leikmanni Keflavíkur, Þresti Leó, tókst undir lok hlutans að setja niður eina úr miðbænum rétt í þann mund er bjallan gall.

 

Því spennandi leikur, með miklu undir, sem fór af stað í lokaleikhlutann. Virkilega jafnt spilaður lokaleikhluti. Keflvíkingar náðu ekki komast yfir fyrr en það voru um 2 mínútur eftir. Virtust líka ekkert á þeim buxunum að láta þá forystu af hendi. Áðurnefndur útlendingur Keflavíkur sýndi af sér allar bestu hliðarnar í leikhlutanum (12/21 stigi skoruð), báðum megin á vellinum og ennfrekar náði hann að setja í eina stóra körfu sem allir virtust vissir um að hefði verið banahöggið. Leikmaður Hauka, Emil Barja, svellkaldur, svaraði því hinsvegar í næstu sókn með erfiðum þrist (jafnaði leikinn). Þarna voru aðeins nokkrar sekúndur eftir, en lokaatlaga Usher að körfunni (sjá að neðan) var aðeins hársbreidd frá því að klára leikinn.

Lokasókn venjulegs leiktíma:

 

 

Leikurinn endaði því í stöðunni 76-76 og ljóst var að það þyrfti að leika til þrautar, ef einhver niðurstaða ætti að finnast.

 

Framlengingin var svo að öllu leyti í vasa gestana úr Keflavík (3-10). Leikurinn endaði því með 7 stiga sigri bláliða, en næsti leikur þessara liða verður á heimavelli þeirra, í Sláturhúsinu, kl:1915, komandi mánudag (23.03)

 

 

Lykilmaður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Davon Usher, en hann skoraði 21 stig (9/14 af vellinum – 12 stig í 4. leikhluta), stal 3 boltum og tók 7 fráköst á þeim 29 mínútum sem hann spilaði í kvöld.

 

 

Myndasafn #1

Myndasafn #2

Tölfræði 

 

 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur & Axel Finnur

 

 

Haukar-Keflavík 79-86 (19-19, 20-16, 21-21, 16-20, 3-10)

 

Haukar: Alex Francis 26/12 fráköst, Haukur Óskarsson 16, Kári Jónsson 15/11 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Barja 12/12 fráköst/9 stoðsendingar, Sigurður Þór Einarsson 3, Kristinn Marinósson 3/9 fráköst, Kristinn Jónasson 2, Hjálmar Stefánsson 2/4 fráköst, Jón Ólafur Magnússon 0, Ívar Barja 0, Helgi Björn Einarsson 0/6 fráköst, Alex Óli Ívarsson 0.

 

Keflavík: Davon Usher 21/5 fráköst, Reggie Dupree 15, Valur Orri Valsson 15/5 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 10/6 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 9/6 fráköst/5 stoðsendingar, Davíð Páll Hermannsson 8, Damon Johnson 8/7 fráköst, Knútur Eyfjörð Ingvarsson 0, Gunnar Einarsson 0, Guðmundur Jónsson 0, Eysteinn Bjarni Ævarsson 0, Andrés Kristleifsson 0.

 

Dómarar: Jón Bender, Björgvin Rúnarsson, Davíð Kristján Hreiðarsso

Davon Usher – Keflavík:

 

Sigurður Ingimundarson – Keflavík:

 

Kári Jónsson – Haukar:

 

Ívar Ásgrímsson – Haukar:

 
Fréttir
- Auglýsing -