12:16
{mosimage}
Kaflaskil í íslenskri sjónvarpssögu
Allt benti til þess að Keflavíkurkonur færu annað árið í röð í snemmbúið sumarfrí þegar Haukar tóku 2-0 forystu í úrslitaeinvígi liðanna í Iceland Express deild kvenna. Liðin mættust í þriðja úrslitaleiknum síðastliðið þriðjudagskvöld þar sem Keflavíkurkonur náðu að landa góðum útisigri með 78-81 sigri á Haukum og þar með batt Keflavík enda á 27 leikja heimasigurgöngu Hauka. Staðan er því 2-1 í einvíginu og mætast liðin í fjórða leiknum í Sláturhúsinu í Keflavík í dag kl. 16:15 þar sem kaflaskil verða í íslenskri sjónvarpssögu þar sem RÚV mun sýna beint frá leiknum.
Aldrei áður hefur verið sýnt beint frá leik í úrslitakeppni kvenna í körfuboltanum og RÚV því að marka spor í sjónvarpssögu landsins. Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkurkvenna, var kátur í bragði í leikslok að Ásvöllum á þriðjudag og sagði að hann gæti lofað því að fólk yrði ekki svikið með leikinn í dag hvort sem það kæmi í Sláturhúsið til að fylgjast með leiknum eða í sófanum heima framan við imbakassann.
„Þetta var allt eða ekkert á þriðjudagskvöld, sumarfríið var einfaldlega handan við hornið og ég var næstum því tilbúinn til þess að fara í sundskýluna og beint niður á strönd,” sagði Jón eftir leik en geriðst svo alvarlegur um stund. „Við fórum vel yfir okkar mál eftir síðasta leik, við vorum 2-0 undir og höfðum engu að tapa. Ég bað stelpurnar um að sanna það fyrir sjálfum sér að þær væru betri en fyrstu tveir leikirnir gegn Haukum hefðu gefið til kynna. Stelpunum tókst það reyndar ekki fyrstu 35 mínúturnar í leiknum á þriðjudag en gerðu það svo sannarlega síðustu fimm mínúturnar,” sagði Jón.
Keflavík var 14 stigum undir fyrir lokaleikhlutann á þriðjudag og með mikilli þrautsegju tókst þeim að komast að nýju inn í leikinn og að lokum hafa sigur. Keflavík vann fjórða leikhlutann 27-12 og nú hafa bæði Haukar og Keflavík gerst sek um alvarlega körfuboltaglæpi. Bæði lið hafa verið á einhverjum tímapunkti í úrslitarimmunni með góða forystu í leikjunum en kastað þeirri forystu út í hafsauga. „Þetta er einbeitingarleysi hjá báðum liðum, ekkert annað. Línan sem þú ert að dansa á er rosalega fín og annað hvort ert þú of kátur eða of dapur og þá er öll forysta fljót að fara,” sagði Jón. Hvernig líst honum svo á framhaldið? „Við erum að spila á móti langbesta liði landsins en við erum ekki tilbúnar til þess að gefa tommu eftir í baráttunni og við sjáum bara hvað setur í sjónvarpinu í dag.“
Keflavík-Haukar
Leikur 4
Sláturhúsið í dag kl. 16:15