22:58
{mosimage}
(Birna lék vel með Keflavík í kvöld)
Baráttuvilji Keflavíkurkvenna var engu líkur í kvöld, 14 stigum undir fyrir fjórða og síðasta leikhlutann tókst þeim að jafan metin gegn margföldum meisturum Hauka og að lokum landa 78-81 sigri að Ásvöllum. Með sigrinum batt Keflavík enda á 27 leikja sigurgöngu Hauka á heimavelli en þar höfðu Haukakonur ekki tapað í 18 mánuði ef frá er talin Evrópukeppnin. Staðan í úrslitaeinvígi Hauka og Keflavíkur er því 2-1 Haukum í vil og ljóst að á laugardag verður brotið blað í íslenskri sjónvarpssögu þegar RÚV mun sýna í beinni útsendingu frá fjórða leik Hauka og Keflavíkur sem fram fer í Sláturhúsinu. Frá þessu er greint hjá www.vf.is
Aldrei áður hefur kvennakörfuboltaleikur í úrslitakeppninni verið sýndur í beinni útsendingu en á því verður breyting á laugardag. Fjórði leikurinn verður í Sláturhúsinu og hefst hann kl. 16:15 en þann daginn verður sannkölluð sjónvarpsveisla fyrir körfuknattleiksunnendur þar sem SÝN verður með þriðja leik Njarðvíkur og KR í beinni útsendingu kl. 14:50.
Að leik kvöldsins og þeim ótrúlegu sveiflum sem einkenndu hann frá upphafi til enda. Helena Sverrisdóttir setti Keflavíkurstúkuna hljóða strax í upphafi leiks er hún gerði sjö fyrstu stig Haukakvenna og staðan 7-2. Fyrsta karfan, eins og svo margar aðrar hjá Haukum í þessu úrslitaeinvígi, kom eftir sóknarfrákast frá Helenu en Haukar völtuðu gjörsamlega yfir Kefalvík í frákastabaráttunni í dag. Þær rauðu tóku 51 frákast gegn 36 hjá Keflavík og alls tóku Haukar 22 sóknarfráköst í leiknum.
Bæði lið voru að pressa í upphafi leiks og falla í svæðisvörn en Haukar voru sterkari til að byrja með og höfðu yfir 18-14 að loknum fyrsta leikhluta. Sigrún Ámundadóttir fór út af snemma í 1. leikhluta og leit allt út fyrir að hún hefði meitt sig illa en Haukum til lukku harkaði hún af sér og kom aftur inn á áður en leikhlutinn var úti.
Svava Ósk Stefánsdóttir fékk sína þriðju villu í liði Keflavíkur í upphafi annars leikhluta og fékk að fara á bekkinn. Þær Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir og Marín Karlsdóttir komu með góða baráttu inn í Keflavíkurliðið í 2. leikhluta og í stöðunni 29-24 Haukum í vil tóku gestirnir á rás og gerðu átta stig í röð. Staðan orðin 29-32 Keflavík í vil en liðin gengu svo til leikhlés í stöðunni 38-42.
Það þótti nokkurri furðu sæta að Keflavík væri í raun með forystu í hálfleik en þær grýttu boltanum frá sér í gríð og erg og var Ifeoma Okonkwo dugleg við að þefa uppi alla lausa bolta en hún var með sjö stolna bolta í kvöld og barðist vel í Haukavörninni.
Sigrún Ámundadóttir stóð í ljósum logum í þriðja leikhluta og setti niður fimm þriggja stiga körfur fyrir Hauka og fékk góðan tíma til þess að vanda skot sín á meðan Kefalvík lék hripleka svæðisvörn. Þá gerði Pálín Gunnlaugsdóttir tvær þriggja stiga körfur í röð í leikhlutanum og breytti stöðunni í 55-46 Haukum í vil. Haukar unnu þriðja leikhluta 28-12 og héldu eflaust flestir ef ekki allir sem voru staddir á Ásvöllum í kvöld að Haukar væru orðnir Íslandsmeistarar annað árið í röð. Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 66-52 fyrir Hauka.
{mosimage}
Algjör kúvending varð á leik Keflavíkur í fjórða leikhluta en Haukar voru samt ávallt að stríða Keflavík með því að hirða af þeim hvert frákastið af öðru, bæði í vörn og sókn. Framan af lokaleikhlutanum benti ekkert annað til þess en að Helena og Pálína myndu hefja þann stóra á loft í leikslok. Þegar 5 mínútur voru til leiksloka var staðan 72-64 Haukum í vil en þá gekk í garð fantagóður kafli hjá Keflavík og skoruðu gestirnir 8 stig í röð og jöfnuðu metin í 72-72 og 2:15 mín. til leiksloka.
Haukar komust í 74-72 en Bryndís Guðmundsdóttir, sem vöknuð er af værum blundi, jafnaði metin í 74-74 og Keflavík komst í 74-76 þegar mínúta var til leiksloka. Helena Sverrisdóttir minnkaði muninn í 75-76 á vítalínunni en Birna Valgarðsdóttir jók muninn að nýju upp í þrjú stig en það gerði hún af vítalínunni þegar 37 sekúndur voru til leiksloka.
Haukum misfórst að skora í næstu sókn en TaKesha kom Kefalvík fimm stigum yfir 75-80 þegar 27 sekúndur voru til leiksloka. Haukar tóku leikhlé og síðar innkast við miðju, boltinn barst til Helenu Sverrisdóttur sem setti niður glæsilega þriggja stiga körfu og staðan 78-80 og 18 sekúndur til leiksloka. Haukar brutu strax á Bryndísi sem fékk boltann hjá Kefalvík og 15 sekúndur til leiksloka. Bryndís hitti úr fyrra vítinu og staðan 78-81. Haukar áttu síðustu sóknina og fengu þrjár tilraunir til þess að jafna metin með þriggja stiga körfu en ekkert skotanna rataði rétta leið og því fögnuð Keflavíkurkonur sigri í sveiflukenndum leik.
Atkvæðamest í liði Keflavíkur í kvöld var TaKesha Watson með 25 stig og 10 fráköst en það sást á leik Keflavíkurliðsins hversu mikilvæg Bryndís Guðmundsdóttir er þeim en hún gerði 14 stig í kvöld eða fjórum stigum meira en hún gerði samanlagt í fyrstu tveimur leikjunum.
Hjá Haukum var Sigrún Ámundadóttir með 22 stig en hún gerði 16 stig í þriðja leikhluta. Sigrún tók auk þess 8 fráköst í leiknum. Þá gerði Kristrún Sigurjónsdóttir 16 stig en Helena Sverrisdóttir var með 12 stig og 15 fráköst í kvöld.
Leikur kvöldsins var ein rússíbanareið frá upphafi til enda, Keflavík leiddi með fjórum stigum í hálfleik en Haukar vinna þriðja leikhluta 28-12 en Keflavík svarar fyrir sig í þeim fjórða með því að vinna leikhlutann 12-27.
Liðin mætast í fjórða sinn á laugardag kl. 16:15 í Sláturhúsinu í Keflavík og verður leikurinn í beinni útsendingu hjá RÚV.
Gangur leiksins:
7-2,12-6,18-14
23-16,29-28,38-42
42-44,55-46,66-52
72-62,72-72,78-81
{mosimage}