spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík enn taplausar eftir öruggan sigur gegn Íslandsmeisturum Vals

Keflavík enn taplausar eftir öruggan sigur gegn Íslandsmeisturum Vals

Keflavík lagði Íslandsmeistara Vals í Blue höllinni í kvöld í 8. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Keflavík sem áður taplausar í efsta sætinu á meðan að Valur er í 4. sætinu með fimm sigra eftir fyrstu átta leikina.

Fyrir leik

Lið Keflavíkur á að sjálfsögðu harma að hefna gegn Val allt þetta tímabil, þar sem að Valur sópaði þeim út í úrslitaeinvígi síðasta tímabils eftir að Keflavík hafði unnið deildarmeistaratitilinn.

Gengi liðanna nokkuð ólíkt það sem af er vetri, þar sem að Íslandsmeistarar Vals byrjuðu leiktíðina nokkuð brösulega, en Keflavík hefur enn ekki tapað leik.

Gangur leiks

Heimakonur í Keflavík voru með fullkomna stjórn á leiknum frá fyrstu mínútu. Eru snöggar að búa sér til gott forskot og leiða með 12 stigum þegar fyrsti fjórðungur er á enda, 19-7. Það lítur allt út fyrir að Keflavík ætli að stinga almennilega af í upphafi annars leikhlutans, en Valur fær nokkra þrista til að detta og ná að koma forskotinu aftur inn fyrir 10 stigin og er munurinn aðeins 7 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 33-26.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Daniela Wallen með 10 stig á meðan að fyrrum leikmaður Keflavíkur Karina Konstantinova var komin með 7 stig fyrir Val.

Valskonur gera sig alveg líklegar til þess að gera þetta að leik í upphafi seinni hálfleiksins. Áhlaup þeirra er þó of stutt og ná heimakonur aftur að keyra forystu sína upp í 16 stig fyrir lokaleikhlutann, 57-41. Þær láta svo kné fylgja kviði í upphafi fjórða leikhluta þar sem þær fara mest 23 stigum yfir og vinna leikinn að lokum, gífurlega örugglega, 70-50.

Atkvæðamestar

Best í liði Keflavíkur í kvöld var Daniela Wallen með 12 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar. Fyrir Val var það Karina Konstantinova sem dró vagninn með 11 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum.

Kjarninn

Vissulega vantaði bandarískan leikmann í lið Vals, en samkvæmt heimildum er liðið að vinna í því að skipta um leikmann þessa dagana. Á löngum köflum í leiknum náðu þær þó alveg að halda í við gífurlega sterkt lið heimakvenna. Kaflarnir voru þó eins og oft vill verða hjá liðum sem tapa, of fáir og alltof stuttir. Keflavík aftur á móti gerði bara nákvæmlega það sem búist var við af þeim í þessum leik, unnu hann örugglega og halda því áfram að vera eina taplausa lið efstu tveggja deilda karla og kvenna.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 22. nóvember, en þá heimsækir Keflavík Þór í Höllina á Akureyri á meðan að Valur fær Njarðvík í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -