spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík einar á toppnum eftir háspennu lokasprett

Keflavík einar á toppnum eftir háspennu lokasprett

Keflavík tók í kvöld á móti Skallagrími. Þetta er þriðja viðureign liðanna en Keflavíkurstúlkur unnu fyrstu tvær viðureignirnar. Fyrri leikinn af nokkru öryggi á heimavelli en síðasti leikur liðanna var hörkuspennandi viðureign í Fjósinu þar sem Keflavíkurstúlkur stálu sigrinum með frábærri spilamennsku í fjórða leikhluta. Biljana Stankovic þjálfari Skallagríms var ekki með þeim í kvöld en hún þurfti að fara heim vegna dauðsfalls í fjölskyldunni og vottum við hjá karfan henni alla okkar samúð.

Keflavíkurstúlkur skoruðu fyrstu stig leiksins en Skallagrímsstúlkur sem hittu ekkert fyrstu mínúturnar komust fljótlega af stað og tóku forystuna. æði liðin voru að gera mikið af mistökum eftir því sem leið á leikhlutann en gestirnir héldu forystunni út leikhlutann. Staðan eftir fyrsta leikhluta 13 – 14.

Gestirnir frá Borgarnesi byrjuðu annan leikhluta betur. Eftir rúmar 4 mínútur var stigaskorið 2 – 8. Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur tók þá leikhlé til að stappa stáli í sínar stúlkur. Bæði lið voru að hitta mjög illa í leikhlutanum og þegar leikhlutinn var allur var skotnýting liðanna 21% – 33% og Skallagrímsstúlkur með nokkur stig til vara inn í seinni hálfleik þökk sé aðeins betri skotnýtingu. Staðan í hálfleik 22 – 29.

Heimastúlkur mættu mun ákafari til leiks í þriðja leikhluta en gestirnir voru fljótar að drepa niður í því. Skotnýtingin fór aftur að vera stórt vandamál hjá Keflvíkingum ekki það að hún hafi verið neitt stórkostleg hjá Borgnesingum en betri var hún samt. Staðan fyrir fjórða leikhluta 28 – 39.

Skallagrímsstúlkur byrjuðu betur en Keflvíkurstúlkur komu svo af stað og byrjuðu að naga niður 14 stiga forystu gestanna. Áhlaup Keflvíkinga náði hámarki þegar Salbjörg Ragna hitti þrist og minnkaði muninn niður í eitt stig þegar um tvær mínútur voru eftir. Erfiðlega gekk fyrir bæði lið að hitta eftir það en Sigrún Sjöfn setti niður tvö víti og Brianna Banks gerði slíkt hið sama. Birna Valgerður svaraði því með þrist og Keflavík náði svo boltanum tveim stigum undir með 10 sekúndur eftir af leikklukkunni. Keflavíkurstúlkur köstuðu boltanum frá sér og Skallagrímur því með boltann, tveim stigum yfir og 7 sekúndur á leikklukkunni. Keflvíkingar unnu boltann og hittu þrist þegar 0,4 voru eftir og Keflavíkur bekkurinn sem fagnaði mjög og fékk á sig tæknivillu. Shequila Joseph fór á vítalínuna og jafnaði leikinn. Staðan 50 – 50 og framlenging.

Þessi mjög svo dapri leikur hjá báðum liðum var í það minnsta spennandi þessar síðustu mínútur venjulegs leiktíma.

Keflavík skoraði fyrstu stig framlengingarinnar og áhorfendur tóku loks við sér. Kelvíkingar bættu í og skoruðu 10 – 1 fyrstu 4 mínúturnar og kláruðu leikinn. Það var eins og gestirnir væru búnir með allt bensínið. Lokatölur 61 – 54.

Byrjunarlið:

Keflavík: Irena Sól Jónsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Katla Rún Garðarsdóttir, Brittanny Dinkins og Birna Valgerður Benónýsdóttir.

Skallagrímur: Maja Michalska, Sigrún Sjöfn Ámundardóttir, Shequila Joseph, Ines Kerin og Brianna Banks.

Þáttaskil:

Keflavík komst loksins á lagið í fjórða leikhluta og það dugði þeim til sigurs.

Tölfræðin lýgur ekki:

Skotnýtingin var svo léleg að það er ekki hægt að skrifa um hana.

Hetjan:

Shequila Joseph var best gestanna með 25 stig og 20 fráköst. Sigrún Sjöfn var dugleg í vörninni og reif niður 19 fráköst og skilaði 8 stigum.

Britanny Dinkins átti ekki sinn besta leik í kvöld en hún var sannarlega betri en enginn og var mjög góð síðustu mínúturnar og í framlengingunni, 22 stig og 17 fráköst.. Elsa Albertsdóttir átti mjög fína innkomu og Birna Valgerður Benónýsdóttir átti fínan leik.

Kjarninn:

Skallagrímur átti ekkert spes leik, en þær gerðu nóg gegn arfa slöku liði Keflavíkur framanaf. En það var Keflavík sem kláraði leikinn. Bæði lið þurfa eflaust að ræða ýmislegt á næstu æfingu.

Tölfræði

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -