spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík deildarmeistarar - Ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum Subway deildarinnar

Keflavík deildarmeistarar – Ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum Subway deildarinnar

Með sigri sínum gegn nýliðum ÍR í gærkvöldi tryggði Keflavík sér deildarmeistaratitilinn í Subway deild kvenna. Liðið er í efsta sæti deildarinnar með 46 stig, en bæði Valur og Haukar eru tveimur sigurleikjum fyrir neðan þær með 42 stig. Bæði geta liðin náð Keflavík að stigum í síðustu tveimur umferðunum, en vegna innbyrðisstöðu Keflavíkur gegn þeim munu þær alltaf enda í efsta sætinu.

Deildarmeistarabikarinn sjálfan mun Keflavík fá afhendan eftir síðasta leik mótsins, en það mun vera eftir leik þeirra í Blue Höllinni gegn Fjölni þann 29. mars.

Staðan í deildinni

Þá er það einnig ljóst að í fyrstu umferð úrslitakeppninnar munu deildarmeistarar Keflavíkur og Íslandsmeistarar Njarðvíkur mætast, þar sem Keflavík verður með heimavöll í fyrsta leik. Þetta ætti að verða nokkuð spennandi viðureign þar sem að eini tapleikur deildarmeistara Keflavíkur síðan í janúar kom einmitt á dögunum gegn Njarðvík í æsispennandi leik í Ljónagryfjunni.

Þar sem að Keflavík hafa tryggt sér deildarmeistaratitilinn er einnig ljóst að í hinni viðureign undanúrslitana munu Valur og Haukar eigast við. Haukar með yfirhöndina á heimavöll í fyrsta leik eins og staðan er núna, en þar sem það eru tveir leikir eftir er það ekki alveg öruggt hvort liðið mun fá heimavöllinn. Bæði lið eiga nokkuð svipað sterka andstæðinga eftir í þessum tveimur umferðum, Valur mætir Fjölni í Dalhúsum og Njarðvík í Origo Höllinni á meðan að Haukar mæta Njarðvík í Ljónagryfjunni og Breiðablik í Smáranum.

Úrslitakeppni Subway deildar kvenna rúllar af stað þann 3. apríl með fyrsta leik í báðum undanúrslitaviðureignunum.

Fréttir
- Auglýsing -