Nágrannarnir í Keflavík og Njarðvík áttust við í síðasta leik í Geysisbikarnum og luku þessari glæsilegu bikarhelgi KKÍ.
Leikurinn byrjaði nokkuð jafn en Keflavíkurstúlkur komust yfir um miðjan leikfjórðunginn og bjuggu sér til góða forystu hægt og rólega. Staðan eftir fyrsta leikhluta 16 – 9 fyrir Keflavík.
Það gekk ekkert hjá Njarðvík að komast inn í leikinn og Keflavík var með öll völd á vellinum í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik 38 – 17 Keflavík í vil.
Keflavík setti fyrstu 6 stig þriðja leikhluta og gerðu þar með nánast út um leikinn. Njarðvíkingar voru þó hvergi nær hættar, börðust eins og ljón og áttu sinn besta leikhluta. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhluta 54 – 28 Keflavík í vil.
Fleiri leikmenn fengu að spreyta sig í fjórða leikhluta en í þeim þrem sem á undan voru. Lokatölur 64 – 35 Keflavík í vil.
Byrjunarlið:
Keflavík: Bergþóra Káradóttir, Agnes Perla Sigurðardóttir, Anna Lára Vignisdóttir, Agnes María Svansdóttir og Hjördís Arna Jónsdóttir.
Njarðvík: Krista Gló Magnúsdóttir, Karlotta Ísold Eysteinsdóttir, Emilía Ósk Hjaltadóttir, Ásdís Hjálmrós Jóhannesdóttir og Aníta Ýr Taylor
Þáttaskil:
Það er erfitt að benda á einhver þáttaskil önnur en þau að eftir um 4 mínútna leik tóku Keflvíkingar öll völd á vellinum og héldu þeim þéttingfast til leiksloka.
Tölfræðin lýgur ekki:
Keflavík unnu alla tölfræðiþætti.
Hetjan:
Hetja leiksins er Njarðvíkurliðið í heild sinni, þær börðust allan leikinn á móti stærri, sterkari og körfuboltalega séð betri andstæðing.
Bestar í frábæru liði Keflavíkur voru þær Agnes Perla Sigurðardóttir með 6 stig og 14 fráköst og Agnes María Svansdóttir með 23 stig, 4 fráköst, 4 stoðsendingar og 6 stolna bolta.
Kjarninn:
Gæði og geta Keflavíkur skein í gegn. Njarðvíkingar eiga hrós skilið fyrir frábæra baráttu. Það voru margir framtíðar meistaraflokksleikmenn sem tóku sýn fyrstu skref á parketinu í kvöld og það verður gaman að fylgjast með þeim komast aftur í bikarúrslit næstu ár.