spot_img
HomeFréttirKeflavík bikarmeistari í 10. flokki kvenna

Keflavík bikarmeistari í 10. flokki kvenna

 
Keflvíkingar eru bikarmeistarar í 10. flokki kvenna eftir 76-50 sigur á grönnum sínum úr Njarðvík en Keflvíkingar fóru á kostum í fjórða og síðasta leikhluta og unnu hann 32-15. Sara R. Hinriksdóttir var valin besti maður leiksins en hún gerði 32 stig, tók 11 fráköst, stal 5 boltum og gaf 3 stoðsendingar í liði Keflavíkur.
Liðunum gekk ekki vel að skora framan af leik, Keflvíkingar tóku þá leikhlé í stöðunni 1-2 og það hafði fín áhrif því Keflvíkingar komu grimmir úr leikhléinu og leiddu 14-7 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Sandra Þrastardóttir fann sig vel í teignum fyrir Keflavík.
 
Rétt eins og í fyrsta leikhluta voru liðin nokkuð mistæk í upphafi annars leikhluta en Keflvíkingar höfðu þú frumkvæðið og komust í 18-9 en þá fékk Sandra Þrastardóttir sína þriðju villu í liði Keflavíkur og hélt því á bekkinn.
 
Með Söndru utanvallar náðu Njarðvíkingar að fikra sig nærri, Guðlaug Björt Júlíusdóttir gerði fjögur hraðaupphlaupsstig fyrir Njarðvík í röð og minnkaði muninn í 23-17 en við brotthvarf Söndru í liði Keflavíkur hafði Sara Hinriksdóttir tekið upp þráðinn og haldið Keflavík við efnið sem leiddu 29-24 í hálfleik.
 
Sara Hinriksdóttir var með 15 stig í hálfleik hjá Keflavík en hjá Njarðvík var Guðlaug Björt Júlíusdóttir með 11 stig og 7 fráköst og áttu liðin það sammerkt í hálfleik að vera með skelfilega skotnýtingu.

Guðlaug B. Júlíusdóttir sækir að Keflvíkingunum Ingunni Kristínardóttur og besta manni leiksins, Söru Hinriksdóttur.
 
Keflvíkingar fengu óskabyrjun á síðari hálfleiknum og gerðu fimm fyrstu stigin og munurinn orðinn 10 stig, 34-24. Guðlaug Björt setti skömmu síðar niður fyrstu þriggja stiga körfu Njarðvíkinga í leiknum og grænar tóku við sér, minnkuðu muninn í 40-33 eftir gegnumbrot frá Anítu Kristmundsdóttur sem barðist vel fyrir Njarðvíkinga í dag.
 
Hraðaupphlaup Keflavíkur voru mörg hver vel útfærð í dag og því leiddu Keflvíkingar, með Söru Hinriksdóttur fremsta meðal jafningja, 44-35 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Strax í upphafi fjórða leikhluta stakk Keflavík af, Sara Hinriksdóttir setti niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 51-35 Keflavík í vil og þær litu aldrei til baka eftir það. Munurinn jókst jafnt og þétt og að lokum hafði Keflavík sannfærandi 26 stiga sigur, 76-50 og rúlluðu því upp fjórða leikhluta 32-15.
 
Sara R. Hinriksdóttir lék glimrandi vel í liði Keflavíkur í dag með 32 stig, 11 fráköst, 5 stolna bola og 3 stoðsendingar. Ingunn Kristínardóttir bætti við 13 stigum, 12 fráköstum, 6 stoðsendingum og 5 vörðum skotum. Hjá Njarðvík var Guðlaug Björt Júlíusdóttir atkvæðamest með 21 stig og 7 fráköst en Aníta Kristmundsdóttir átti fínar rispur hjá grænum með 10 fráköst, 4 stig og 5 stoðsendingar.
 
Fréttir
- Auglýsing -