spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík bauð aðventuna velkomna með stórsigri á Njarðvík

Keflavík bauð aðventuna velkomna með stórsigri á Njarðvík

Aðventan í aðsigi og grannaglíma í Reykjanesbæ. Toppslagur í Subwaydeild kvenna milli erkifjendanna í Keflavík og Njarðvík. Fyrirfram höfðu eflaust einhverjir látið sér hlakka til stórleiksins en heimakonur í Keflavík sáu til þess að viðureign kvöldsins varð aldrei spennandi og yfirburðarsigur Keflavíkur raunin. Lokatölur 72-45!

Hrollur í liðunum í upphafi þar sem Njarðvíkingar leiddu 3-6 eftir fyrstu fimm mínúturnar þrátt fyrir að hafa brennt af níu fyrstu skotunum sínum í leiknum. Keflvíkingar leiddu þó 15-10 eftir fyrsta hluta.

Keflavík var mun sterkari aðilinn í öðrum leikhluta, fráköstuðu betur, hittu betur og varnarleikurinn hélt Njarðvíkingum í aðeins 12 stigum í öðrum leikhluta. Keflavík leiddi 40-22 í hálfleik eftir stemmnings þrist frá Thelmu Dís þegar um 30 sekúndur voru eftir af öðrum leikhluta.

Daneila, Thelma og Anna allar með 8 stig hjá Keflavík í fyrri hálfleik en hjá Njarðvík var Hesseldal með 6 stig. Ljóst að ef ekki átti illa að fara þyrftu gestirnir að gera umtalsvert betur í síðari hálfleik.

Yfirburðir Keflavíkur héldu áfram í þriðja leikhluta. Staðan 49-27 eftir fyrstu fimm mínúturnar í þriðja og fátt að benda til þess að Njarðvíkingar væru að kokka upp stórt áhlaup. Heimakonur lokuðu þriðja með flautukörfu frá Önnu Ingunni og staðan 60-34 eftir þrjá leikhluta.

Fjórða leikhluta þarf lítið að ræða. Njarðvíkingar sáu aldrei til sólar og því urðu lokatölur 72-45. Varnarleikur Keflavíkur var þéttofinn allan leikinn og Njarðvíkingar með 8% þriggja stiga skotnýtingu í kvöld. Heilt yfir mjög sterk liðsframmistaða hjá Keflavík á meðan máttarstólpar í Njarðvíkurliðinu áttu afleitan dag.

Pinzan var stigahæst í liði Keflavíkur í kvöld með 14 stig en þær Thelma og Anna Ingunn bættu báðar við 13 stigum og Wallen með 10. Hjá Njarðvík voru Strize og Hesseldal báðar með 11 stig og það nánast í óteljandi tilraunum. Tynice Martin fann ekki fjölina í dag og lék aðeins örfáar mínútur í síðari hálfleik í liði Njarðvíkinga.

Keflvíkingar verma því toppinn eftir 10 umferðir og mæta Stjörnunni í Umhyggjuhöllinni 3. desember í næstu umferð. Njarðvíkingar halda þá í Smárann sama dag og mæta Breiðablik.

Gangur leiksins

3-6, 15-10

32-18, 40-22

49-27, 60-34

66-39, 72-45

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -