spot_img
HomeFréttirKeflavík á beinu brautina með góðum sigri í Grindavík

Keflavík á beinu brautina með góðum sigri í Grindavík

Keflvíkingar komust á sigurbraut í Domino´s-deild kvenna í dag með öflugum útisigri á Grindavík í Mustad-höllinni. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en Keflvíkingar tóku alfarið við stýrinu um miðjan þriðja leikhluta og skildu gestgjafa sína eftir stigalausa þennan daginn. Lokatölur í Grindavík 65-89 Keflavík í vil.

Frammistaðan
Emelía Ósk Gunnarsdóttir átti flottan leik í liði Keflavíkur í dag með 23 stig á 24 mínútum og þá var hún einnig með 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Helsta frammistaðan var þó liðsvörn Keflavíkur sem gerði gulum oft erfitt fyrir en síðustu fimm í þriðja og fyrstu fimm í fjórða gerðu endanlega út um þetta og það með Dominque Hudson á tréverkinu! Hjá Grindavík var Ashley Grimes með 19 stig og 9 fráköst.

Færibandið
Grindavík sýndi í raun aðeins sitt sanna andlit í 2. leikhluta í dag á meðan Keflvíkingar voru heilt yfir jafnari og betri í sínum aðgerðum. Þær Lovísa Falsdóttir, Ingunn Embla Kristínardóttir og María Ben Erlingsdóttir sem allar koma af hinu margfræga kvennafæribandi í Keflavík fengu allar að kenna á mætti uppeldisklúbbsins í dag. Ungur og efnilegur hópur Keflavíkur stóð þétt saman og þá var gaman að sjá hve vel Birna Valgerður Benónýsdóttir fann sig í leiknum með 14 stig á 15 mínútum og 7 fráköst í þokkabót, leikmaður sem vert er að fylgjast grannt með á næstunni.

Reynslumikið lið Grindavíkur getur gert mikið betur en kom fram í dag og á að hafa alla burði til þess að blanda sér í toppbaráttuna en þá verður „nennan“ fræga að vera til staðar, Keflvíkingar voru mun vinnusamari í dag og uppskáru eftir því.

Helstu tölur leiksins:
3-10, 15-26, 20-30, 35-41, 46-58, 50-66, 52-73, 65-89.

Tölfræði leiksins
Myndasafn

Viðtal: Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Keflavík
 

 

Mynd/ [email protected] – Birna Valgerður átti góðar rispur í teignum með Keflavík í dag.

Fréttir
- Auglýsing -