spot_img

Keflavík 6-0 !

Stjörnumenn fengu piltana frá Bítlabænum í heimsókn í annarri umferð Subway-deildarinnar þetta kvöldið. Það er skínandi bjart yfir Sunny-Kef þessi dægrin, sigri gestirnir í kvöld verða Subway-deildarliðin frá Kef-City 6-0 samanlagt. Garðbæingar eru hins vegar með þrælskemmtilegt lið og sigruðu í fyrstu umferð að Hlíðarenda gegn Íslandsmeisturum Vals. Er þetta ekki bara 50/50 leikur, Kúla góð?

Kúlan: ,,Piff! Nei! Hæð, styrkur reynsla, 74-90 Kef!“

Byrjunarlið

Stjarnan: Darbo, Hinn þriðji, Addú, Friðrik,  Jucikas

Keflavík: Hössi, Milka, Eric Ayala, Maric, Ólafur

Gangur leiksins

Igor Maric kom sjóðandi úr upphituninni og setti fyrstu 7 stig gestanna. Keflvíkingar byrjuðu talsvert betur og hótuðu að stinga af, komust í 6-17 eftir 6 mínútna leik en Arnar stöðvaði blæðinguna með leikhléi. Hinn þriðji leiddi endurkomu heimamanna og botninn datt einhvern veginn úr leik Keflavíkur um stundar sakir. Jucikas kom Garðbæingum svo yfir rétt fyrir leikhlutaskipti með hyldjúpum tvisti, staðan 23-21! Það má geta þess að 6 leikmenn Stjörnunnar og 7 leikmenn gestanna skoruðu í fyrsta leikhluta sem hlýtur að vera gæðamerki.

Heimamenn héldu áfram sem frá var horfið og áttu fyrstu 5 stig annars leikhluta og leiddu 28-21. Magnús Pétursson kom þá loksins með svar fyrir gestina og henti 3ja stiga plástri á sína menn. Leikurinn snerist gestunum aftur í hag og leiddu 30-37 þegar 4 mínútur voru til hálfleiks. Varnir liðanna hertust eftir því sem á leið og lítið skorað fram að leikhléi, heimamenn skriðu þó nær og svo gott sem jafnt, 38-39, í hálfleik. Hálf Keflavík var komin á blað snemma í leikhlutanum, 9 leikmenn búnir að skora!

Milka setti 9 stig í röð fyrir Kef-City snemma í þriðja leikhluta, þar af einn þrist sem gerist ekki á hverjum degi og gestirnir komust í 45-54. Hinn þriðji er gjarnan svarið og tók upp á því að hamra boltann ítrekað ofan í körfuna sem gefur ekki bara stig heldur líka stemmningu! Gestunum tókst ekki að hrista baráttuglaða Garðbæinga af sér en höfðu þó 6 stiga púða, 59-65 að loknum þriðja.

Hössi setti þrist í byrjun fjórða og það eru gjarnan vondar fréttir fyrir andstæðingana. Í kjölfarið skriðu gestirnir yfir 10 stiga múrinn, staðan 61-72, góðar 8 mínútur eftir og Arnar tók leikhlé. Það dugði skammt að þessu sinni og rúmum 2 mínútum síðar skellti Arnar í annað leikhlé í stöðunni 65-80, 6 mínútur eftir og róðurinn farinn að þyngjast allverulega fyrir Stjörnumenn. Allt stefndi í að gestirnir myndu í framhaldinu sigla þessu í rólegheitum heim en þá rann æði á Hinn þriðja! Hann óð um völlinn og raðaði niður þristum héðan og þaðan af vellinum. Honum til aðstoðar var Júlíus Orri sem setti sinn annan þrist á skömmum tíma og jafnaði leikinn í 86-86 þegar 1:24 voru eftir af leiknum! Stemmningin í húsinu síðustu mínúturnar var rosaleg, nálægt því úrslitakeppnis! Það var Ayala sem kom í raun Sunny-Kef til bjargar á lokamínútunum og setti allnokkur mjög mikilvæg stig en þó var það Jaka Brodnik sem kom gestunum aftur yfir 86-88 með tvisti af millifærinu og voru það sennilega mikilvægustu stig leiksins. Júlíus var hársbreidd frá því að setja þrist eftir körfu Jaka en ekki vildi hann detta og piltarnir frá Bítlabænum sluppu með skrekkinn, lokatölur 86-92 í hörkuleik.

Menn leiksins

Ekki er hægt að segja annað en að Hinn þriðji hafi verið maður leiksins, gaurinn setti 40 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 5 fráköst! Þvílíkur leikmaður. Fyrir Stjörnuna kom hins vegar ekki alveg nógu mikið frá alveg nógu mörgum að þessu sinni.

Keflvíkingar eru með rosalega breiðan og bara verulega góðan hóp! Ayala var stigahæstur með 20 stig og komu mörg þeirra síðustu mínúturnar eins og fram hefur komið. Hann var einnig með 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Telja mætti upp allnokkra til viðbótar hjá Keflavík sem áttu flottan leik en Milka kom næstur með 19 stig í fáum skotum og 11 fráköst.

Kjarninn

Stjörnumenn þurfa alls ekki að leggjast í eitthvað þunglyndi eftir leik kvöldsins. Undirritaður vill meina að hlutirnir stefni upp á við, varnarleikurinn var á löngum köflum fínn í kvöld og það vantaði nákvæmlega ekkert upp á baráttuna hjá liðsmönnum Stjörnunnar. Einnig má svo sannarlega benda á að það var ágæt mæting í Ásgarð í kvöld og stemmningin frábær síðustu mínúturnar. Sennilega hefur aldrei í sögu Stjörnunnar verið önnur eins stemmning í húsinu í fyrsta heimaleik vetrarins og það er góðs viti fyrir liðið.

Hlutirnir líta ljómandi vel út hjá Keflvíkingum, frábær hópur og engin tilviljun að þeim er spáð velgengni í vetur. Þó veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér (nema reyndar sumir sem vita hvernig veðrið verður eftir 50 ár), deildin er jú bara rétt að renna af stað. Til að auka við bjartsýnina í hjörtum Keflvíkinga má benda á að Okeke er tæplega kominn af stað ennþá, spilaði tæpar 10 mínútur og skoraði aðeins 2 stig í kvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -