Keflavík tók í kvöld 1-0 forystu í undanúrlsitaeinvíginu gegn Njarðvík í Subwaydeild kvenna. Óhætt er að segja að hart hafi verið barist í Blue-höllinni. Njarðvíkingar urðu fyrir skakkaföllum í fjórða leikhluta þegar Aliyah Collier var borin meidd af velli. Stór þristur sem Anna Ingunn setti fyrir Keflavík reyndist náðarhöggið í leiknum og því leiða deildarmeistararar Keflavíkur einvígið. Annar leikurinn í seríunni fer fram í Ljónagryfjunni 6. apríl.
Daniela og Birna voru beittar í upphafi leiks fyrir Keflavík, Daniela með 5 stig og Birna 8 og heimakonur leiddu 13-6 eftir fimm mínútna leik. Gestirnir úr Njarðvík mættu kaldir, 0-6 í þristum í fyrsta leikhluta og Keflavík leiddi 20-17 að honum loknum. Keflvíkingar með stífa vörn í upphafi leiks og fengu dæmdar á sig átta liðsvillur á fyrstu tíu mínútunum og fannst það full stíf lína hjá dómurum leiksins.
Í öðrum leikhluta fundu gestirnir loks sinn fyrsta þrist og komust yfir 20-25 en því áhlaupi svöruðu Keflvíkingar með 10 stigum í röð. Karina fékk sína þriðju villu í liði Keflavíkur og um þetta leiti var komin áminning um T-villu á bekkinn hjá Keflavík vegna mótmæla. Erna jafnaði 30-30 fyrir Njarðvík og skömmu síðar fengu Keflvíkingar högg þegar dæmd var sóknarvilla á Karinu, hennar fjórða villa og mótmæli af bekknum hjá Keflavík uppskáru T-villu fyrir vikið. Þrátt fyrir þetta högg lokuðu Keflvíkingar fyrri hálfleik vel og leiddu 38-37 í hálfleik.
Wallen með 13 stig og þær Birna og Karina báðar með 10 stig í liði heimakvenna. Hjá Njarðvík var Collier með 14 stig og Raquel 10.
Í þriðja leikhluta skiptust liðin á forystunni en Karina kom Keflavík í 60-54 með flautukörfu eftir glæsilega sendingu frá Wallen. Keflvíkingar héldu því inn í fjórða leikhluta með gott veganesti og góða stemmningu. Þó lúrði yfir þeim sá veruleiki að Karina mætti lítið beita sér varnarlega með fjórar villur.
Aliyah Collier virtist ætla að hnoða í einn af hennar öflugu fjórðu leikhlutum fyrir Njarðvík og gestirnir minnkuðu muninn í 60-58. Snöggtum síðar var hún borin meidd af velli og kom ekki meira við sögu. Keflvíkingar sigu hægt og bítandi fram úr uns Anna Ingunn gerði út um leik kvöldsins með þrist 72-62 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Miðað við þróun leiksins þá var þetta of þungt högg fyrir Njarðvíkinga til að svara og því urðu lokatölurnar í kvöld 74-64. Staðan því 1-0 í rimmunni fyrir Keflavík og leikur tvö í Ljónagryfjunni á fimmtudag.
Karina Denislavova var stigahæst hjá Keflavík í kvöld með 21 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá gerði hún einnig mjög vel að spila allan síðari hálfleik á fjórum villum. Næst Karinu var Birna Valgerður með 19 stig og 6 fráköst og Daniela Wallen bætti við góðri tvennu með 17 stig og 13 fráköst.
Hjá Njarðvík var Aliyah Collier með 26 stig og 13 fráköst og það skýrist vonandi fljótt hver staðan er á henni nákvæmlega. Raquel Laneiro bætti svo við 13 stigum og 5 fráköstum.
Njarðvíkingar tóku 18 sóknarfráköst í kvöld sem verður að teljast vel af sér vikið en 24 tapaðir boltar og 19% þriggja stiga nýting er ekki líklegt til að skila sigri á heimavelli Keflavíkur. Njarðvíkingar eiga því enn eftir að finna lausnina á því að vinna sigur gegn Keflavík í úrslitakeppni kvenna. Leikur kvöldsins var jafn og spennandi og gaf tón fyrir seríu sem gæti orðið svakaleg skemmtun.