spot_img
HomeFréttirKátt í Höllinni - best heppnaða og fjölmennasta Pollamót Þórs í körfuknattleik...

Kátt í Höllinni – best heppnaða og fjölmennasta Pollamót Þórs í körfuknattleik frá upphafi

Pollamót Þórs í körfuknattleik fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri 4. og 5. október. Aldrei hafa fleiri lið verið skráð til leiks (31) eða keppendur fleiri (tæplega 300). Ekki var annað að sjá á keppendum og öðrum gestum en að mótið og lokahófið hafi lukkast afar vel.


Á Pollamóti Þórs í körfuknattleik sannast hið fornkveðna að maður er manns gaman. Gleðin var við öll völd innan sem utan vallar og þótt fólki renni stundum kappið í kinn í leik bar það ekki fegurðina ofurliði. Körfubolti er skemmtileg íþrótt þar sem allir geta fundið sína fjöl. Þá er fátt skemmtilegra en að hitta gamla félaga úr boltanum og eignast nýja.


Þegar upp var staðið var það Landsliðið (réttnefnda) sem varð hlutskarpast í Pæjudeildinni (20 ára og eldri konur). UMFGB unnu Polladeildina (25 til 39 ára karla) og UBK stóð uppi sem sigurvegari í Lávarðadeildinni (karlar 40 ára og eldri).


Í mótslok var blásið til flottasta lokahófs Pollamóts Þórs í körfuknattleik frá upphafi. Í fyrsta leikhluta reiddi Þórður Vilhelm Steindórsson (Doddi) fram dýrindismat, Villi vandræðaskáld keyrði upp stuðið sem veislustjóri og María Björk söng fagra tóna. Í öðrum leikhluta tryllti Sigurður Orri Kristjánsson lýðinn með kassagítarnum. Í þriðja leikhluta ætlaði svo þakið bókstaflega að rifna af Höllinni þegar Úlfur Úlfur steig á svið og lokahófsgestir ruddust hver um annan þveran út á dansgólfið. DJ Hilli tók svo við góðri forystu í fjórða leikhluta og sigldi sigrinum í höfn fyrir alla viðstadda með dúndrandi danstónlist. Eftir lokahófið fóru margir lokahófsgestir sjálfviljugir í framlengingu og skemmtu sér niðri í bæ fram á rauða nótt.


Inn á milli atriða tóku sigurvegarar við verðlaunum sínum auk þess sem Atli Viðar leikmaður Körfuboltaþjálfunar Brynjars var verðlaunaður sem Hetja mótsins. Þá var uppboð á árituðum treyjum landsliðsfólksins okkar Helenu Sverrisdóttur og Loga Gunnarssonar og forlátri kamínu smíðaðri af Stór-Þórsaranum Hr. Birni Sveinssyni. Svo var sjálfur Villi vandræðaskáld (!) boðinn upp, myndakassi og pílukastkeppni.


Skipuleggjendur Pollamóts Þórs í körfuknattleik þakka öllum keppendum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá alla aftur að ári og enn fleiri til. Næsta Pollamót Þórs í körfuknattleik verður 3. og 4. október 2025.


Mótsnefnd þakkar innilega þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við mótið og sér í lagi þeim sem lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til þess að láta allt ganga upp. Það koma margar hendur að því að láta svona stórt mót ganga upp. Sérstakar þakkir fá þær systur Jórunn Eydís Jóhannesdóttir og Agnes Bryndís Jóhannesdóttir fyrir að lyfta lokahófinu upp á næsta stig. Einn af okkar frábæru sjálfboðaliðum, Páll Jóhannesson, tók fullt af myndum á mótinu eins og sjá má með því að smella á hlekkinn í ummælum.


Mótsnefnd þakkar einnig styrktaraðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag (Skógarböðin, Coca Cola, Acro, Kjarnafæði Norðlenska, Kristjánsbakarí og Akureyrarbæ).

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -