Íslenska landsliðið leikur tvo leiki í undankeppni EuroBasket 2021 í vikunni. Báðir fara leikirnir fram í búbblu í Grikklandi, þar sem að fyrri leikur þeirra er í dag kl. 15:00 gegn sterku liði Slóveníu og laugardaginn 14. gegn Búlgaríu. Báðir verða leikirnir í beinni útsendingu á RÚV.
Karfan ræddi við nýliða í liðinu Kötlu Rún Garðarsdóttur og spurði hana út í aðstæður í Grikklandi og leikina tvo.
Hvernig er stemmingin í hópnum fyrir leikjunum tveimur?
“Stemningin er góð, allar heilar og spenntar að fá að spila loksins aftur. Staðan hérna er auðvitað smá skrítin þar sem það kom upp smit hjá öðrum liðum í okkar búbblu, eins og tilkynnt var í gær, en við stöndum allar saman í þessu”
Hvernig er að koma inn í þetta lið sem nýliði?
“Stelpurnar eru búnar að taka vel á móti mér. Þetta er mjög góður og skemmtilegur hópur þannig það er búið að vera þæginlegt að koma inn í þetta”
Hverjir eru helstu veikleikar og styrkleikar liðsins?
“Veikleikar myndi ég segja að við höfum náð að æfa mjög lítið saman og erum ekki í okkar besta leikformi vegna æfingabanns. Styrkleikarnir okkar eru að við erum með góða skotmenn í öllum stöðum og allar tilbúnar í að berjast”
Hafa verið einhverjar áhyggjur varðandi Covid-19 í búbblunni?
“Eins og hefur komið fram þá greindist smit hjá öllum hinum liðunum í okkar riðli, sem hafa verið með okkur á hóteli þannig aðstöður eru ekki alveg þær sem maður var að vonast eftir. Hinsvegar er hópurinn okkar búinn að fara mjög varlega og huga vel að sóttvörnum þannig vonandi fer allt bara vel”
Hafið þið náð að æfa vel og skoða andstæðingana?
“Eftir að við komum út gátum við loksins byrjað að æfa sem lið og það hefur gengið mjög vel. Höfum náð góðum æfingum þessa 3 daga. Miðað við stuttan tíma saman hefur gengið vel að púsla öllum saman. Við erum búnar að fara yfir fyrri andstæðingana og hvernig við viljum verjast þeim”
Hvað þarf Ísland að gera til þess að ná góðum úrslitum?
“Slóvenía er auðvitað með mjög gott lið en það sem við þurfum að gera er að passa leiðina að körfunni varnarlega, þær vilja gjarnan ráðast á körfuna og skora flest stig inní teig. Svo þurfum við einnig að passa boltann sóknarlega og reyna tapa sem fæstum boltum. En fyrst og fremst þurfum við að mæta brjálaðar til leiks, tilbúnar að taka á þeim”