Íslandsmeistarar Vals höfðu betur gegn ÍR í N1 höllinni í lokaleik 19. umferðar Bónus deildar karla í kvöld, 90-87.
Eftir leikinn er Valur í 4. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan ÍR er í 9. til 10. sætinu með 16 stig líkt og Keflavík.
Leikur kvöldsins var nokkuð kaflaskiptur í fyrri hálfleiknum þar sem gestirnir úr ÍR náðu mest 12 stiga forystu á upphafsmínútunum, en þegar í hálfleik var komið höfðu heimamenn náð að jafna leikinn.
Heimamenn í Val ná svo að vera skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins, en ÍR er aldrei langt undan og munar aðeins einu stigi á liðunum fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða er leikurinn jafn fram á lokamínúturnar, en í upphafi brakmínútna er það ÍR sem er skrefinu á undan. Með góðri vörn, vítum frá Joshua Jefferson og Kristni Pálssyni og einum risastórum þrist frá Kára Jónssyni þegar um 30 sekúndur eru eftir nær Valur að sigla heim naumum sigri, 90-87.
Bestur í liði Vals í kvöld var Taiwo Badmus með 21 stig og 5 fráköst. Þá skilaði Joshua Jefferson 18 stigum og 4 stoðsendingum.
Fyrir ÍR var Hákon Örn Hjálmarsson atkvæðamestur með 24 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Jakob Falko með 17 stig, 4 fráköst og 9 stoðsendingar.