Sumir vilja meina að Haukarnir hafi valdið miklum vonbrigðum í vetur. Þeir hafa hins vegar spilað vel í síðustu tveimur leikjum og áttu samkvæmt öllu að vinna gesti sína í leik kvöldsins úr Breiðholti vandræðalítið. ÍR-ingar hafa þó oft á tíðum reynst andstæðingum sínum erfiður ljár í þúfu, einkum þegar Breiðholtsseiglan er með þeim í för.
Gestirnir byrjuðu betur og virkuðu vel stemmdir. Hálffleyga borgfirska undrið, Björgvin Hafþór, hóf leik með stolnum bolta og troðslu í framhaldinu. Mitchell og Klassi fóru svo að fordæmi hans og gestirnir komust í 8-17. Hjá Haukum virtist aðeins Mobley tilbúinn í byrjun og í stöðunni 13-19 var hann kominn með 11 stig. Undrið setti þá þrist og hélt sínum mönnum við efnið. Undir lok leikhlutans tíndist þó hver Haukamaðurinn á fætur öðrum inn í leikinn og eftir m.a. 2 innstimplunarþrista voru aðeins 2 stig á milli liðanna að loknum leikhlutanum, 26-28.
Breiðhyltingar voru hvergi bangnir og náðu fínum spretti í byrjun annars leikhluta. Í stöðunni 29-37 höfðu sjö leikmenn gestanna komið sér á blað og Ívar tók leikhlé og lýsti yfir megnri óbeit sinni á frammistöðu sinna manna. Þá tók við frekar undarlegur kafli í leiknum þar sem Haukarnir voru allt í einu átta á móti fimm ÍR-ingum inn á vellinum og m.a. var dæmd villa á Daða Berg þegar hann var tæplega á sama vallarhelmingi og þar sem meint leikbrot átti sér stað! Það breytti þó ekki öllu, meira skipti að einnig fjölgaði leikmönnum Hauka sem létu að sér kveða enda leynast hæfileikar í mörgum Haukaleikmanninum. Leikurinn jafnaðist og liðin buðu upp á fínan körfuknattleik. Að vísu létu ÍR-ingar bresta á með útgáfu af varnarleik undir lok leikhlutans sem undirritaður hefur aldrei séð áður en á einhvern undarlegan hátt gekk hún ágætlega og ÍR-ingar héldu enn 2 stiga forskoti í hálfleik, 47-49.
Það var komið að Haukum að byrja betur í þriðja leikhluta. Kára Jónssyni óx ásmegin jafnt og þétt í þessum leik og byrjaði að raða þristum ásamt Mobley. Á skömmum tíma var staðan orðin 60-51 og gestirnir virtust vera að missa trúna og þolinmæðina en þær frænkur eru alveg nauðsynlegar í kappleikjum. Ástandið versnaði með þristi frá Barja og flottu gegnumbroti auk villu og vítaskots frá Kára, staðan orðin 77-58 og vonin orðin veik fyrir gestina. Mótlætið birtist einkum í villusöfnun og pirringi hjá Klassa en sá reyndi kappi á að sýna meiri reynslu og klassa en það. Með kæruleysislegum lokamínútum Haukanna enduðu gestirnir að vísu með 8 stiga spretti, staðan 77-66 eftir þriðja og kannski smá von?
Gestirnir náðu að koma muninum niður fyrir hin hásálfræðilegu 10 stig, einkum með góðri frammistöðu Mitchell sem var frábær í leiknum. Fyrrnefndur Kári hafði hins vegar ekki í hyggju að bjóða áhorfendum upp á spennu og setti gestunum stólinn fyrir dyrnar ítrekað með flottum gegnumbrotum. Þegar 5 mínútur voru eftir var munurinn aftur kominn yfir 10 stigin, 85-72. Klassi hafði fundið hausinn á bekknum og setti 2 snögga þrista en alltaf svaraði Kári og tíminn var of naumur fyrir gestina til að hleypa spennu í leikinn. Eftir alls kyns vitleysisgang, sem óþarfi er að rekja nákvæmlega, síðustu mínúturnar höfðu gestirnir minnkað muninn í 94-88 en sigurinn var þó tæplega nokkurn tímann í hættu og góður sigur Hauka í hörkuleik niðurstaðan.
Kári Jónsson var klárlega maður leiksins, skilaði 30 stigum í nokkrum skotum, hirti 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar sem reiknast sem 33 framlagsstig! Mobley átti líka flottan leik með 24 stig og nýtingin til fyrirmyndar.
Mitchell var frábær hjá gestunum, endaði með 32 stig og 11 fráköst. Sveinbjörn Klassi hefði ekki átt að örvænta svona snemma en skilaði 16 stigum í þessum leik. Undrið missti svolítið flugið eftir því sem á leið en endaði með 10 stig líkt og Vilhjálmur. ÍR-ingar geta gengið sáttir frá þessum leik, 9 leikmenn komust á blað og dýrmæt reynslustig skiluðu sér í bankann.
Texti: Kári Viðarsson
Haukar-ÍR 94-88 (26-28, 21-21, 30-17, 17-22)
Haukar: Kári Jónsson 30/6 fráköst/6 stoðsendingar, Brandon Mobley 24/6 fráköst, Kristinn Marinósson 10/5 fráköst, Emil Barja 10/9 fráköst/13 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 10/6 fráköst, Hjálmar Stefánsson 6, Haukur Óskarsson 4, Ívar Barja 0, Jón Ólafur Magnússon 0, Arnór Bjarki Ívarsson 0, Guðni Heiðar Valentínusson 0, Alex Óli Ívarsson 0.
ÍR: Jonathan Mitchell 32/11 fráköst, Sveinbjörn Claessen 16, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 10/6 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 10/5 fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 7/5 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 5, Daði Berg Grétarsson 4/6 stoðsendingar, Trausti Eiríksson 2, Kristján Pétur Andrésson 2, Kristófer Fannar Stefánsson 0, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0, Hákon Örn Hjálmarsson 0.