23:35
{mosimage}
Eggert Baldvinsson og Karfan.is í eina sæng
Frá stofnun Karfan.is þann 14. desember 2005 hefur fjöldi dugnaðarsamra einstaklinga lagt lóð sín á vogarskálarnar svo vefsíðan mætti vaxa og dafna. Allt starf sem unnið er á og fyrir Karfan.is er gert í sjálfboðavinnu körfuknattleiksíþróttinni til heilla. Nú þegar tveggja ára afmæli Karfan.is er í uppsiglingu er ekki úr vegi að kynna nýjan baráttujaxl í þéttskipað og vel leikandi lið Karfan.is
Eggert Baldvinsson ætti að vera körfuknattleiksunnendum að góðu kunnur enda er hann brautryðjandi á sviði beinna netútsendinga frá íslenskum körfuknattleik. Allt frá blautu barnsbeini hefur hann verið að fikta sig áfram umvafinn snúrum og alls kyns tæknidóti. Ekki alls fyrir löngu hófust viðræður á millum forsvarsmanna Karfan.is og Eggerts og upp úr málþófinu gekk Eggert til liðs við okkur á Karfan.is og tók með sér í farteskinu beinar netútsendingar.
Karfan.is mun í kjölfar þessa gríðarlega hvalreka sem Eggert er hefja brátt beinar netútsendingar frá völdum leikjum í íslenskum körfuknattleik. Útsendingarnar verða í umsjón Eggerts þar sem Vodafone verður tæknilegur samstarfsaðili Karfan.is í þessu spennandi verkefni.
Eggert er enginn nýgræðingur í þessum útsendingum og er hann upphafsmaður þeirra hérlendis og hefur ekki látið á sér standa þegar önnur félög, t.d. KFÍ, hafa beðið hann um aðstoð í þessum efnum. Eggert kynnti þessa ástríðu og hugsjón sína fyrst á vefsíðu Breiðabliks og áhorfið lét ekki á sér standa. Karfan.is tók tal af þessum nýjasta liðsmanni vefsíðunnar sem hefur gríðarlegan metnað fyrir þessu verkefni.
Hvernig kom það til að þú vildir fara að sýna beint frá körfubolta á netinu?
,,Árið 2002 kom inn videomöguleiki í MSN messenger. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég gat ekki annað en hugsað hvort þetta gæti verið eitthvað stærra. Ég kynnti mér það sem var til á þeim tíma og fann hugbúnað sem gat tekið við merki úr myndavél og komið efninu úr vélinni á netið. Fyrsta netúsendingin mín var nú bara heima í stofu og þegar hún virkaði flott varð ég bara að finna lausn til þess að leyfa heiminum að njóta þessa með mér. Til að geta dreift á netinu körfuboltaleikjum í beinni til almennings þarf að hafa stórt batterí á bak við sig. Ég þekkti nokkra góða drengi innan OgVodafone sem fannst spennandi að prófa hvort þetta væri hægt. Ári síðar fór fyrsta körfuboltanetúsendingin í loftið en þetta var í október 2003. Upphafsútsendingin tókst með glæsibrag og síðan þá hafa allir heimaleikir Blika í meistaraflokki karla verði sendir út og einstaka kvennaleikir liðsins.”
(Með því að smella hér er hægt að lesa fyrstu fréttina um upphafsútsendinguna)
Eggert er kvikmyndagerðarmaður og hefur klippt margar þekktar auglýsingar ásamt því að klippa áramótaskaupið 2006.
,,Ég er kvikmyndagerðarmaður, klippi t.d. sjónvarpsauglýsingar, sjónvarpsþætti, stuttmyndir og músíkvideo. Ansi margar vel þekktar auglýsingar hafa lent inni á borði hjá mér, t.d. Thule snillingarnir sem töluðu við útlendinga. KB námsmaðurinn með Þorsteini Guðmundssyni og svo klippti ég Áramótaskaupið 2006,” sagði Eggert svo ljóst má vera að hann kann sitthvað fyrir sér í þessum efnum.
Vefsjónvarp, er það miðill framtíðarinnar?
,,Að vissu leyti er vefsjónvarp eitthvað sem mun koma meira og meira eftir því sem árin líða. Góðar tengingar heima hjá fólki gera þetta að möguleika sem almenningur getur nýtt sér. Þó þetta sé hægt þýðir það ekki að hver sem er geti byrjað með sjónvarpsrás. Viðkomandi þarf að gera efni sem er áhugavert og vandað. Það horfir enginn á lélegt efni eða eins og maður sagði: ,,þó þú eigir penna gerir það þig ekki að rithöfundi.” Gæðin á efninu og skemmtanagildi munu alltaf vera það sem áhorfendur velja, sama hvaðan það kemur.”
Eggert er mikill Bliki og spilar með meistaraflokki félagsins. Einnig hefur hann verið formaður Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks. En hvers væntir hann af samstarfi sínu við Karfan.is?
,,Breiðablik TV var upphafið og nú legg ég það niður og fer yfir í þennan pakka. Ég, Bjarni Gaukur og Sigurður Hauksson í Blikum höfum verið að vinna að þessum samningi við Vodafone frá því í maí. Ekki var alveg klárt hvernig þetta færi fram en nú er það komið í ljós. Karfan.is er tvímælalaust besta síðan í fréttaflutningi um körfubolta hér heima. Það er því fullkomlega rökrétt að útsendingar á netinu séu í samstarfi við þennan góða og virka vef. Maður vonast síðan bara til að geta fjölgað útsendingum í framtíðinni og það eru góðar líkur á því að það takist þegar maður er kominn inn í jafn öflugt samstarf og raun ber vitni.”
Karfan.is fagnar komu Eggerts til vefsíðunnar og við greinum glaðir frá því að ef allar aðstæður verða fyrir hendi þá mun fyrsta beina netútsendingin á Karfan.is fara fram þann 18. nóvember næstkomandi þegar bikarmeistarar ÍR fá Grindavík í heimsókn í Seljaskóla.
Stefnt verður að því að vera með eina beina netútsendingu í mánuði og vonandi verður hægt að fjölga þeim eftir því sem fram líða stundir.