Í gær var það staðfest að Haukur Helgi Pálsson landsliðsmaður mun venda kvæði sínu í kross og halda til Rússlands frá Frakklandi þar sem hann mun spila með liði Unics Kazan. Líkt og nafnið gefur til kynna þá er liðið í borginni Kazan sem er um 900 km austur af höfuðborginni Moskvu.
Liðið endaði í þriðja sæti í hinni feykilega sterku VTB deild í Rússlandi á síðustu leiktíð. ” Það var komin tími á breytingu, ég var búin að vera í Frakklandi í þrjú ár og langaði að breyta til og færa minn leik uppá næsta þrep. VTB deildin er líkast til ein af þremur sterkustu deildum í Evrópu á eftir ACB (Spáni). Þaðan eru þrjú lið í Euroleague og tvö í Eurocup þannig að styrkur körfuknattleiks þarna er gríðarlegur. Ef hægt væri að kvarta yfir einhverju þá verða það líklega ferðalögin með liðinu, þau munu verða lengri þar sem að Rússland er nokkuð stærra en Frakkland.” sagði Haukur í samtali við Karfan.is nú snemma í morgun.
Jón Arnór Stefánsson er eini körfuknattleiksmaður okkar Íslendinga sem hefur spilað í Rússlandi áður og því ekk úr vegi að spurja hvort Haukur og Jón hafi borið saman bækur áður en skrifað var undir? “Nei reyndar ekki ennþá hlerað hann um þetta, en í gegnum tíðina höfum við auðvitað átt ótal samtöl um allar þesar deildir sem hann hefur spilað í og svo auðvitað hans tíma í Pétursborg. Ég þarf klárlega að heyra í honum til að undirbúa mig betur áður en ég held af stað.”
Hauki er ætlað strax stórt hlutverk með liði Kazan og hefur þjálfari liðsins haft augastað á Hauk. ” Þjálfarinn hefur sagt að hann búist við miklu af mér og strax er sett ágætis pressa á mig. Hann vill vera með mér í því að bæta mig sem leikmann og gera nafn mitt sterkara í Evrópu. Hann sagðist hafa fylgst með mér í gegnum árið og verið hrifin af mínum leik, sem ég er bara nokkuð ánægður með að heyra.”
Að lokum spurðum við Hauk að því hvort hann sé eitthvað búin að kynna sér og/eða læra Rússnens orð til að bjarga sér. “Nei ekki ennþá en hann tilvonandi tengdafaðir minn kenndi mér í gær “Rússkí Karamba” en ég held ég fari nú ekkert að hlaða í það þarna þar sem þetta er bara eitthvað bull frá meistara Sigurjóni Kjartanssyni.” sagði Haukur að lokum og hló.
Við þetta er að bæta að Haukur Helgi og unnusta hans Sara Dögg Jónsdóttir urðu á dögunum foreldrar þegar stúlkubarn kom í heiminn. Karfan.is sendir þessari spá nýju fjölskyldu hamingjuóskir.