KR-ingar unnu öruggan sigur á KFÍ í DHL-höllinni í kvöld en leikurinn náði aldrei að vera spennandi þar sem KR-ingar byrjuðu með látum sem þér létu ekki af fyrr en í sturtunni eftir leik. KFÍ virkaði þung tog þreytt enda hefur liðið varla náð að æfa saman að neinu ráði undanfarnar vikur sökum veðurs og annarra þátta. Sport.is greinir frá.
KR-ingar, sem léku án útlendinga, beinlínis stungu af strax í fyrsta leikhluta en staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-10 fyrir KR og má segja að það hafi aldrei verið til baka litið hjá KR en liðið hélt áfram að sýna mátt sinn og megin allan leikinn án þess að KFÍ hafði erindi sem erfiði. Yfirburðir Vesturbæinga voru miklir en taðan í hálfleik var 54-29. Það markverðasta sem gerðist í fyrri hálfleik var þegar Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, fékk vænt olnbogaskot frá leikmanni KFÍ og þarf Brynjar eða KR að punga út sæmilegum pening til að laga brosið á Brynjari svo vel sé.
KR-ingar skelltu sér í skotsýningu í seinni hálfleik en eitthvað var liðið þunnskipað undir lok leiksins en þá var Brynjar kominn á bekkinn í nettu pirringskasti, þó ekki útilokaður, vegna tannvandræða og Jón Orri hafði meitt sig og þurfti að fara útaf. Ungir og efnilegir leikmenn komu inná og stóðu sig með ágætum.
KFÍ lék fram stæðilegum kana í leiknum en sá heitir Samuel Toluwase en hann lenti á landinu í dag og hefur varla náð að læra nöfnin á leikmönnum KFÍ, hvað þá að komast að einhverju ráði í leikinn. Hann skoraði samt 8 stig í leiknum og virkaði ágætur á velli.
KR-ingar fá tvo kana á næstu dögum en á mánudaginn kemur sá fyrri sem er leikstjórnandi en seinna í vikunni kemur stærri leikmaður sem á að hjálpa til í teignum. KR getur reyndar andað rólega næstu daga en liðið leikur ekki í Powerade-bikarnum sem er að skella á.
Frétt og myndir: Sport.is