spot_img
HomeFréttirKáJoð: Átti KKÍ að ritskoða ummæli Ólafs?

KáJoð: Átti KKÍ að ritskoða ummæli Ólafs?

Kjartan Atli Kjartansson, betur þekktur undir nafninu KáJoð, sem nýverið lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril hjá Stjörnunni og tók upp pennann hjá Vísi.is, birti í dag grein um stóra “fermingarstelpumálið”. Þar fer hann ofan í saumana á tilkynningu KKÍ vegna málsins og ræðir íþróttamenn sem fyrirmyndir.
 
“Við áttum okkur öll fyrirmyndir þegar við vorum yngri. Ég hef orðið í fleirtölu, því í tilviki mínu og í tilvikum allra minna vina, voru fyrirmyndirnar fleiri en ein. Fleiri en tvær. Ég á enn fyrirmyndir og ég lít upp til mismunandi fólks af mismunandi ástæðum. Ég sæki ekki innblástur minn til greinaskrifa með því að horfa á uppáhalds körfuboltamennina mina spila. Ég les ekki viðtöl við Wayne Rooney til að fræðast um gang himintunglana. Og ég les ekki bækur eftir Guðrúnu Helgadóttur til að pumpa mig upp áður en ég fer í ræktina. Við sækjum fróðleik og innblástur í lífinu til margra.

Hlutverk okkar sem foreldrar er að kenna börnunum okkar að líta einmitt upp til margra, að virða skoðanir og taka það sem við teljum að sé mikilvægt frá sem flestum áttum. Við eigum líka að kenna þeim að setja spurningamerki við ummæli sem okkur þykja heimskuleg. Við eigum að útskýra fyrir þeim að engin af þeirra fyrirmyndum er fullkomin. Allir eru mannlegir. Áður fyrr, fyrir tíma netsins, var eins og sumt fólk væri tekið í guðatölu. Ég man þegar maður las bækur um Che Guevara sem unglingur og manni fannst hann varla hafa stigið feilspor. En hvernig hefðu málin verið ef Che hefði verið með Twitter-síðu? Verið að skjóta á hinn og þennan og kannski birt myndir af sér dauðadrukknum í kynsvalli? 

Ég man þegar það spurðist út að Michael Jordan væri haldinn spilafíkn. Það var eins og veröld sumra hefði hrunið. Jordan var ekki fullkominn. 

Þetta er einmitt vandamálið þegar við gerum þessa ósanngjörnu kröfu að íþróttafólk og annað frægt fólk sé yfir okkur hin hafin. Ólafur Ólafsson er bara venjulegur maður sem er góður í körfubolta. Ekkert meira og ekkert minna.”
 
 
Greinina í heild sinni er hægt að lesa á Vísi.is.
 
Fréttir
- Auglýsing -