spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKaflaskiptur KR-sigur í Vesturbænum

Kaflaskiptur KR-sigur í Vesturbænum

KR-ingar tóku á móti Haukum í 7. umferð Domino’s deildar karla síðasta fimmtudagskvöld. Fyrir leik höfðu KR-ingar unnið fjóra leiki og tapað tveimur, á meðan gestirnir höfðu unnið tvo leiki og tapað fjórum

Staða liðanna í deildinni sást vel í fyrri hálfleik, en á meðan heimamenn virtust geta skorað að vild bauð Haukaliðið ekki af sér góðan þokka, hvorki í vörn né sókn. Heimamenn höfðu afar rúma og verðskuldaða forystu í hálfleik, 52-31, og virtist eina óvissa leiksins vera spurningin hversu stór sigur Vesturbæingar yrði.

Það má hins vegar segja að fregnir af andláti Hauka hafi verið stórlega ýktar. Gestirnir komu með látum inn í þriðja fjórðung og skoruðu hvert stigið á fætur öðru, án þess að heimamenn fengju rönd við reist. Eftir 20-3 áhlaup Hauka var munurinn skyndilega orðinn fjögur stig, og fyrir lokafjórðunginn var munurinn einungis sex stig, 71-65. Í upphafi lokafjórðungsins héldu Haukar áfram að saxa á forskotið og náðu því niður í eitt stig snemma í fjórða leikhluta. Þá rönkuðu KR-ingar hins vegar við sér úr rotinu og eftir tvo þrista frá Pavel Ermolinskij og Orra Hilmarssyni virtust gestirnir slegnir út af laginu. Eftir það sigldu KR-ingar sigrinum í höfn, lokatölur 97-88.

Kaflaskipt

Það er óhætt að segja að leikurinn í DHL-höllinni hafi verið kaflaskiptur, en til að mynda skoruðu Haukar meira í þriðja fjórðungi heldur en allan fyrri hálfleik. KR-ingar létu hins vegar slá sig rækilega út af laginu í upphafi þriðja leikhluta og virtist það hreinlega koma þeim í opna skjöldu að Haukar gætu bitið frá sér. Þegar á reyndi kom reynsla heimamanna sér hins vegar vel, og þrátt fyrir frábært áhlaup gestanna urðu stigin tvö eftir í DHL-höllinni.

Framhaldið

KR-ingar taka næst á móti Grindavík fimmtudaginn 22. nóvember, og er búist við því að Kristófer Acox verði í leikmannahópi Vesturbæinga í þeim leik. Kristófer er sem kunnugt er nýkominn aftur til liðs við KR, en sat í borgaralegum klæðum á bekk KR-inga í gærkvöldi. Haukar taka hins vegar næst á móti Keflavík föstudaginn 23. nóvember.

Fréttir
- Auglýsing -