23:35
{mosimage}
(Justin Shouse)
Justin Shouse var sem oft áður atkvæðamestur í liði Stjörnunnar sem tapaði sínum þriðja deildarleik í röð í kvöld. Justin gerði 28 stig gegn Blikum, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar en það dugði ekki til því Blikar höfðu betur og komust upp fyrir Stjörnuna í deildinni. Justin er þó vongóður um sæti í úrslitakeppninni og telur að Stjarnan þurfi aðeins einn sigur í næstu tveimur leikjum til þess að komast í úrslitakeppnina.
,,Það gekk ekkert hjá okkur í upphafi tímabils og svo nú fyrir skemmstu gekk okkur allt í haginn og við höfum fengið að heyra hversu góðir við erum eftir bikarsigurinn en svo koma bara þrír tapleikir í röð. Kannski vorum við ekki svo góðir eftir allt saman eins og fólk var að segja því við vinnum enga leiki bara með því að mæta á völlinn. Blikar léku einfaldlega betur en við í dag og þegar skotin eru ekki að detta hjá manni þá verður maður að leggja á sig meiri vinnu en við gerðum það ekki í dag,“ sagði Justin en hvernig metur hann stöðu Stjörnunnar um þessar mundir?
,,Ég tel að við séum í ágætum málum þrátt fyrir tapið í kvöld en vissulega er súrt að horfa upp á það núna að það komi ekkert annað til greina en sigur gegn Snæfell og FSu til þess að geta verið öruggir með okkur inn í úrslitakeppnina. Snæfell er mitt gamla lið og það verður enginn hægðarleikur að ná sigri gegn þeim þar sem þeir eru nýbúnir að vinna Grindavík en við þurfum bara að fara aftur í undirstöðuatriðin. Mér fannst við standa okkur ágætlega í þessum leik gegn Blikum en staðreyndin er sú að við hittum ekki úr vítaskotunum okkar,“ sagði Justin en Stjarnan hitti aðeins úr 22 af 36 vítaskotum sínum í leiknum og því óhætt að segja að Garðbæingar hafi verið sjálfum sér verstir.
,,Með einum sigri í næstu tveimur leikjum tel ég að við séum komnir með sæti í úrslitakeppninni en maður vill aldrei láta kylfu ráða kasti,“ sagði Justin og var þess fullviss að Nemanja Sovic hafi skemmt sér betur en aðrir Blikar yfir sigrinum á Stjörnunni en þetta var annar deildarsigur nýliðanna gegn Stjörnunni í vetur en þeir létu Sovic fara frá sér fyrir tímabilið sökum efnahagshrunsins.
,,Ég er fjarri því tilbúinn til þess að fara í sumarfrí á næstunni og nú er þetta bara spurning um að fara heim í gamla spegilinn og spyrja sig að því hvað hefði ég getað gert öðruvísi og betur,“ sagði Justin vonsvikinn í leikslok.